Fótbolti

Guðjohnsen fjölskyldan búin að skila íslensku landsliðunum áttatíu mörkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen þakkar bróður sínum Sveini Aroni Guðjohnsen fyrir stoðsendinguna.
Andri Lucas Guðjohnsen þakkar bróður sínum Sveini Aroni Guðjohnsen fyrir stoðsendinguna. AP/Brynjar Gunnarsson

Mark Andra Lucasar Guðjohnsen á móti Liechtenstein var tímamótamark fyrir Guðjohnsen fjölskylduna.

Þetta var mark númer áttatíu sem landsliðsmaður úr Guðjohnsen fjölskyldunni hefur skorað á sínum landsliðsferli. Hér erum við að tala um mörk fyrir öll íslensku landsliðin frá sextán ára landsliðinu og upp úr.

Eiður Smári Guðjohnsen hefur skilað flestum mörkum fyrir íslensku landsliðin eða alls 39 mörk í 135 landsleikjum.

Andri Lucas er þegar kominn upp í annað sætið í fjölskyldunni með 16 mörk í 37 landsleikjum en afi hans Arnór Guðjohnsen skoraði á sínum tíma 14 mörk í 76 landsleikjum. Arnór spilaði aðeins þrjá leiki fyrir yngri landsliðin.

Sveinn Aron Guðjohnsen er í fjórða sæti með 11 mörk í 39 landsleikjum en enginn úr Guðjohnsen ættinni hefur þó skorað fleiri mörk fyrir 21 árs landsliðið. Sveinn Aron var með 7 mörk í 17 leikjum fyrir 21 árs landsliðið.

Daníel Tristan Guðjohnsen á enn eftir að skora fyrir íslensku landsliðinu en hann hefur þó aðeins náð að spila tvo leiki fyrir sautján ára landsliðið enda ennþá bara fimmtán ára gamall.

Samtals hafa mennirnir úr Guðjohnsen fjölskyldunni skorað 80 mörk í 289 landsleikjum. 42 þeirra hafa komið með A-landsliðinu, 12 með tuttugu og eins árs landsliðinu, 9 með nítján ára landsliðinu, 12 með sautján ára landsliðinu og 5 með sextán ára landsliðinu.

Eiður Smári hefur skorað flest mörk fyrir A-landsliðið (26), Sveinn Aron hefur skorað flest fyrir 21 árs landsliðið (7), Andri Lucas hefur skorað flest fyrir 19 ára (4) og 17 ára liðið (8) en Eiður og Andri eru síðan jafnir hjá sextán ára landsliðinu með tvö mörk hvor.

    • Landsliðsmörkin frá Guðjohnsen fjölskyldunni
    • -

  • Öll landsliðin
  • 39 - Eiður Smári Guðjohnsen
  • 16 - Andri Lucas Guðjohnsen
  • 14 - Arnór Guðjohnsen
  • 11 - Sveinn Aron Guðjohnsen
  • -
  • A-landslið
  • 26 - Eiður Smári Guðjohnsen
  • 14 - Arnór Guðjohnsen
  • 2 - Andri Lucas Guðjohnsen
  • -
  • 21 árs landslið
  • 7 - Sveinn Aron Guðjohnsen
  • 5 - Eiður Smári Guðjohnsen
  • -
  • 19 ára landslið
  • 4 - Andri Lucas Guðjohnsen
  • 3 - Sveinn Aron Guðjohnsen
  • 2 - Eiður Smári Guðjohnsen
  • -
  • 17 ára landslið
  • 8 - Andri Lucas Guðjohnsen
  • 4 - Eiður Smári Guðjohnsen
  • -
  • 16 ára landslið
  • 2 - Eiður Smári Guðjohnsen
  • 2 - Andri Lucas Guðjohnsen
  • 1 - Sveinn Aron Guðjohnsen



Fleiri fréttir

Sjá meira


×