Sport

Björgvin Þorsteinsson er látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björgvin Þorsteinsson horfir á eftir boltanum eftir að hafa sveiflað járninu.
Björgvin Þorsteinsson horfir á eftir boltanum eftir að hafa sveiflað járninu. Golf.is/Seth

Björgvin Þorsteinsson, einn fremsti kylfingur í sögu þjóðarinnar og hæstaréttarlögmaður, er látinn 68 ára að aldri.

Fréttablaðið greinir frá andláti Björgvins sem lést í nótt eftir baráttu við krabbamein undanfarin ár.

Björgvin var sexfaldur Íslandsmeistari í golfi hvar hann átti langan og glæsilegan feril. Aðeins Birgir Leifur Hafþórsson hefur sigrað oftar í karlaflokki eða sjö sinnum. Björgvin varð í fyrsta skipti Íslandsmeistari aðeins átján ára á heimavelli sínum, Jaðarsvelli á Akureyri.

Þá fór Björgvin tíu sinnum holu í höggi á ferli sínum, einu sinni tvo daga í röð á Jaðarsvelli.

Auk afreka á golfvellinum var Björgvin virkur í leiðtogastörfum innan íþróttahreyfingarinnar. Hann sat meðal annars í stjórn Golfklúbbs Akureyrar 1967-1969 og í stjórn Golfsambands Íslands 1998 – 2002.

Björgvin átti enn sæti í Áfrýjunardómstól ÍSÍ og hefur verið kjörinn á Íþróttaþingum ÍSÍ til starfa hjá dómstólnum síðastliðin ríflega tuttugu ár.

Björgvin var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ síðastliðna helgi.

Björgvin lætur eftir sig eiginkonu og uppkomna dóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×