Gríðarlegt hraunrennsli hefur verið undanfarið úr eldstöðvunum í Cumbre Vieja sem hafa nú gosið í tæpan mánuð.
Tveir gígar eru á fjallinu. Fyrsti gígurinn er nú nær kulnaður en sá nýrri er afar virkur.
AP hefur eftir jarðvísindafólki að þarna færi „sannkölluð flóðbylgja af hrauni“. Ástandið sést vel hér að neðan í myndbandi frá AP.
300 hús voru rýmd á eyjunni í gær og hafa um 1.200 manns þurft að flýja heimili sín í vikunni vegna eldsumbrotanna. Alls hafa um 7.000 manns þurft að flýja að heiman frá upphafi gossins, að sögn yfirvalda.
Engan hefur þó enn sakað.