Fram kemur í dagbók lögreglu að tilkynnt hafi verið um „meðvitundarlausan aðila eftir árás“ í Garðabæ í nótt. Hann hafi verið með áverka á höfði og fluttur á slysadeild en árásarmaður flúinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.
Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu segir að rætt hafi verið við vitni á vettvangi í nótt. Rannsakað sé hvort ráðist hafi verið á manninn eða ekið á hann. Maðurinn, sem er tæplega þrítugur, hafi verið fluttur á slysadeild en reynst óbrotinn og með minniháttar áverka. Þá telur lögregla sig vita deili á árásarmanni.