„Það er orðið töluvert langt síðan að við hættum að horfa sérstaklega á smittölur heldur horfum við á veikindi og innlagnir á sjúkrahús,“ sagði Þórdís Kolbrún eftir ríkisstjórnarfund í dag þar sem heilbrigðisráðherra kynnti afléttingarnar. Þær verða í tveimur skrefum; á miðnætti fara fjöldatakmörk upp í tvö þúsund manns og grímuskylda verður afnumin og eftir fjórar vikur verða allar samkomutakmarkanir afnumdar.
„Það að það sé verið að skrásetja þessi smit í samfélaginu er ekki sérstakt áhyggjuefni í sjálfu sér. Það eru þá aðrir þættir sem að munu þá koma í ljós,“ sagði Þórdís Kolbrún.
„Og ég meina, enn og aftur, veiran er hér og hún er ekki farin og við auðvitað höldum áfram bara að taka ákvarðanir samhliða því.“
Hún sagði þá mikið gleðiefni að grímuskyldan yrði afnumin og að opnunartími skemmtistaða yrði lengdur en hann lengist um klukkutíma eftir breytingarnar.
En hefði hún viljað ganga lengra í dag?
„Ég hef auðvitað sagt mína skoðun á því en það var algjör samstaða um þessa ákvörðun heilbrigðisráðherra inni í ríkisstjórninni.“