Þetta tilkynntu lögregluyfirvöld í Flórída í Bandaríkjunum í dag. Svo virðist sem hluti af líki hafi fundist á Carlton náttúruverndarsvæðinu á svæði sem áður var þakið vatni, en svæðið er fenjasvæði. Enn hefur ekki verið borið kennsl á líkamsleifarnar.
Leifarnar fundust nærri bakpoka, sem samkvæmt heimildarmanni NBC News, er talinn tilheyra Laundrie. Foreldrar Laundries beindu Alríkislögreglunni FBI að svæðinu, en þau höfðu verið á ferð um svæðið og gengið fram á bakpokann að sögn Stevens Bertolino, lögmanns Laundrie.
„Chris og Roberta Laundrie fóru að Myakkahatchee Creek garðinum í morgun til að leita að Brian,“ sagði Bertolino í yfirlýsingu.
„Alríkislögreglan var látin vita af áætlunum foreldra Brians í gærkvöldi og fór svo og hitti Chris og Robertu í morgun. Eftir stutta leit við göngustíg sem Brian gekk oft um fundust hlutir í eigu Brians. Eins og staðan er núna stendur ítarlegri rannsókn lögreglu yfir á svæðinu.“
Myakkahatchee Creek garðurinn er um átta kílómetra norður af heimili Laundrie fjölskyldunnar.
Lögreglan hefur undanfarinn rúman mánuð leitað Laundries en lögregla hefur viljað ná tali af Laundrie í tengslum við morðið á kærustu hans, Gabby Petito. Hann ber ekki stöðu grunaðs í málinu en er svokölluð „person of interest“ sem þýðir í raun bara það að lögregla hafi áhuga á tengslum hans við málið.
Lík Petito fannst í þjóðgarði í Wyoming 19. september síðastliðinn og úrskurðaði réttarmeinafræðingur að hún hafi verið kyrkt til dauða. Petito og Laundrie voru á ferðalagi um Bandaríkin þegar hún hvarf og sýndu ítarlega frá ferðalagi sínu á samfélagsmiðlum.
Laundrie sneri aftur heim til foreldra sinna í Flórída 1. september án Petito. Foreldrar hans hafa lítið viljað tala við lögregluna en greindu þó frá því að sonur þeirra hafi farið í göngu um Carlton náttúruverndarsvæðið 14. september. Síðan þá hefur hans verið leitað af lögreglu.