Innlent

„Það verða eftirmálar af þessu“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Murat fagnar sýknudóminum.
Murat fagnar sýknudóminum.

 Oddgeir Einarsson, lögmaður Angjelin Sterkaj, segir fangelsisdóm í málinu gegn honum í takt við væntingar, þar sem hann hafði játað morðið á Armando Beqirai. Verjandi Murat Selivrada var afar harðorður í garð ákæruvaldsins og sagði málinu ekki lokið.

Oddgeir sagðist þurfa að lesa dóminn og ræða við skjólstæðing sinn og gæti ekki sagt til um það á þessu stigi hvort þess yrði freistað að fá refsinguna mildaða.

Angjelin var dæmdur í 16 ára fangelsi í héraðsdómi nú fyrir stundu.

Geir Gestsson, lögmaður Murat Selivrada, sagði sýknudóminn yfir meðákærðu í takt við sínar væntingar. Engar sannanir hefðu legið fyrir í málinu gegn skjólstæðing sínum og það væri með ólíkindum að ákærur hefðu verið gefnar út á hendur meðákærðu.

Sagði hann dóminn sýna að Ísland væri sannarlega réttarríki en að bótakröfu yrði haldið fram.

„Það verða eftirmálar af þessu,“ sagði hann.

Lögmenn Claudiu Sofiu Coelho Carvalho og Shpetim Qerimi sögðu sýknur skjólstæðinga sinna í takt við væntingar en sögðu of snemmt að segja til um framhaldið.

Friðrik Smári Björgvinsson saksóknari sagði of snemmt að segja til um hvort sýknudómunum yrði áfrýjað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×