Körfubolti

„Í fyrsta skipti í langan tíma sem ég segi þetta“

Atli Arason skrifar
Ólafur Ólafsson var að vonum sáttur með sigurinn í kvöld.
Ólafur Ólafsson var að vonum sáttur með sigurinn í kvöld. Vísir/Eyþór

Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, var að vonum ánægður með sigurinn gegn KR í kvöld í þriðju umferð Subway deildarinnar. Sigurinn í kvöld var fyrsti sigur Grindavíkur á KR á heimavelli í tæp fjögur ár en Grindavík vann leikinn með 10 stigum, 90-80.

„Ég er sáttur með frammistöðuna. Þetta verður í fyrsta skipti í langan tíma sem ég segi þetta en ég var virkilega ánægður með frammistöðuna í þriðja leikhluta. Við komum sterkir út úr hálfleiknum og vorum bara allt öðruvísi en við höfum verið undanfarin ár,“ sagði Óli í viðtali við Vísi eftir leik.

Það hefur verið í umræðunni undanfarið hvað Grindvíkingar hafa verið slakir í þriðja leikhluta í leikjunum sínum. Í seinustu tveimur leikjum Grindavíkur tapaði liðið þriðja leikhlutanum með 8 stigum gegn Þór Akureyri og með 11 stigum gegn Val. Það var heldur betur viðsnúningur á því í kvöld en Grindavík vann þriðja leikhluta gegn KR-ingum með heilum 18 stigum, 28-10.

„Þetta er búið að vera krísa, við höfum alltaf verið lélegir í þriðja leikhluta. Alveg sama þótt við séum 20 stigum yfir í hálfleik þá ná lið okkur alltaf í þriðja leikhluta. Við vorum staðráðnir í því núna að þegar við vorum undir með 8 í hálfleik að mæta bara tilbúnir í þriðja og vera bara svona ‘bully‘ og taka á þeim og sjá hverju það myndi skila okkur. Það skilaði okkur miklu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×