Fótbolti

Kanadamenn „uppfærðu“ Víkingaklappið og eru komnir inn á topp fimmtíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnuleikmaðurinn Alphonso Davies með trommuna í Víkingaklappi Kanadamanna.
Stjörnuleikmaðurinn Alphonso Davies með trommuna í Víkingaklappi Kanadamanna. Getty/Vaughn Ridley

Kanadamenn hafa þotið upp styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins eftir mjög gott gengi í undankeppni HM og komust í gær í hóp fimmtíu bestu landsliða heims í fyrsta sinn í 24 ár.

Kanadíska landsliðið er komið upp í 48. sæti FIFA-listans eftir að hafa byrjað árið í 72. sætið.

Þegar árið 2021 rann í garð þá voru Kanadamenn 26 sætum á eftir íslenska landsliðinu en núna eru þeir komnir fjórtán sætum fyrir ofan íslenska landsliðið á listanum en október útgáfa hans var gefin út í gær.

Í kanadíska landsliðinu eru nokkrir ungir og spennandi leikmenn eins og til dæmis hinn eldfljóti Alphonso Davies hjá Bayern München, Jonathan David hjá Lille og Tajon Buchanan hjá New England Revolution. Þeir skoruðu allir í síðasta sigurleik liðsins í undankeppni HM.

Kanadíska landsliðið er enn taplaust í undankeppni HM en hefur gert fjögur jafntefli í sex leikjum sínum í úrslitariðli Norður- og Mið-Ameríku þar sem þrjár efstu þjóðirnar fara beint á HM.

Kanada er eins og er í þriðja sæti, stigi á eftir Bandaríkjamönnum og fjórum stigum á eftir toppliði Mexíkó. Panama er síðan tveimur stigum á eftir Kanada í fjórða sæti en það gefur sæti í Álfu-umspilinu.

Það er líka athyglisvert að Kanadamenn hafa tekið ástfóstri við Víkingaklappið sem íslensku strákarnir gerðu heimsfrægt á EM sumarið 2016.

Kanadamenn hafa reyndar „uppfært“ Víkingaklappið aðeins því tromman er kominn niður á gras og það er einn leikmaður liðsins sem slær taktinn. Þetta má meðal annars sjá hér fyrir neðan eftir 4-1 sigurleik á móti Panama.

Það er einmitt umræddur Alphonso Davies sem slær taktinn þarna á trommunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×