Erlent

Leikstjórinn fékk skot í öxlina en hefur verið útskrifaður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Baldwin og Hutchins unnu saman að myndinni Rust.
Baldwin og Hutchins unnu saman að myndinni Rust. Getty

Leikstjórinn Joel Souza hefur verið útskrifaður af spítala í Santa Fe, eftir að hafa fengið skot í sig úr leikbyssu við tökur á myndinni Rust. Kvikmyndatökustjórinn Halyna Hutchins varð einnig fyrir skoti og var úrskurðuð látin við komuna á sjúkrahús en það var leikarinn Alec Baldwin sem hleypti af vopninu.

Miðlar vestanhafs segja ekki liggja ljóst fyrir hvort raunverulegar kúlur voru í byssunni eða hvort Hutchins og Souza fengu í sig brotajárn úr skotvopninu. Souza er ýmist sagður hafa verið hæfður í viðbeinið eða öxlina en Hutchins var skotin í magann og flutt með þyrlu á sjúkrahús, þar sem ekki reyndist unnt að bjarga henni.

Baldwin gaf sig fram við lögreglu í kjölfar atviksins og var síðan látinn laus. Myndir náðust af honum við lögreglustöðina en vitni segja hann hafa grátið og verið í mikilli geðshræringu.

Harmleikurinn þykir minna um margt á dauða leikarans Brandon Lee, sem lést við tökur á myndinni The Crow árið 1993. Þá reyndist raunveruleg byssukúla enn vera í skotvopni sem notað var við tökur og lenti hún í kvið Lee þegar einn meðleikara hans hleypti af.

Systir Lee hefur tjáð sig um slysið í Santa Fe og vottað hlutaðeigandi samúð sína.

Skotvopnasérfræðingur sem unnið hefur við kvikmyndagerð segir mörgum spurningum ósvarað, þar sem ein af reglum meðferðar skotvopna á tökustað sé að þeim eigi aldrei að beina að öðrum við tökur.

Joe Manganiello, sem vann með Hutchins að myndinni Archenemy, minnist hennar á Twitter. Hutchins, sem var 42 ára, átti einn son.


Tengdar fréttir

Alec Baldwin varð konu að bana við tökur á nýrri mynd

Leikarinn Alec Baldwin er sagður hafa orðið konu að bana við tökur á kvikmynd í Nýju-Mexíkó. Samkvæmt erlendum miðlum hleypti Baldwin af skotvopni sem var einn af leikmunum myndarinnar, með þeim afleiðingum að kona dó og maður særðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×