Erlent

Baldwin segist niðurbrotinn vegna dauða Halyna Hutchins

Samúel Karl Ólason skrifar
Alec Baldwin var við tökur á kúrekamyndinni Rust þegar Hutchins lést.
Alec Baldwin var við tökur á kúrekamyndinni Rust þegar Hutchins lést. Getty/Mark Sagliocco

Leikarinn Alec Baldwin segist niðurbrotinn vegna dauða Halyna Hutchins sem dó eftir að hann hleypti af byssu við tökur á kvikmynd í Nýju Mexíkó í gær. Hutchins var kvikmyndatökustjóri en auk hennar særðist Joel Souza leikstjóri.

Í yfirlýsingum sem Baldwin birti á Twitter og Instagram í dag lýsti hann atvikinu sem sorglegu slysi og sagðist hann vera í sambandi við lögreglu og að hann myndi hjálpa við rannsókn á því hvað gerðist í rauninni. Þá lýsti hann yfir samúð sinni við fjölskyldu Hutchins.

Byssan sem Baldwin hleypti af átti að innihalda púðurskot en fjölmiðlar vestanhafs segja lögregluna ekki búna að opinbera hvað það var sem skaust úr hlaupi byssunnar og hæfði þau Hutchins og Souza. Slysið varð við tökur á kúrekamyndarinnar Rust.

Hutchins var flutt á sjúkrahús með þyrlu þar sem hún lést.

Hér má sjá myndefndi AP fréttaveitunnar frá tökustaðnum í Nýju Mexíkó og viðtal við sérfræðing í meðferð skotvopna.

Hutchins, sem var 42 ára, úskrifaðist frá American Film Institute árið 2015 og var meðal annars nefnd „rísandi stjarna“ af American Cinematographer árið 2019.

Baldwin hefur notið frægðar um árabil en er ekki síst þekktur fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum 30 Rock.

Dauði Hutchens þykir minna á dauða leikarans Brandon Lee við tökur á The Crow árið 1993. Raunveruleg byssukúla reyndist enn vera í skotvopni sem notað var við tökur og varð Lee fyrir skoti úr henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×