Fótbolti

Auðveldara að þjálfa Lukaku heldur en Mbappé eða Neymar

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Thomas Tuchel er þjálfari Chelsea
Thomas Tuchel er þjálfari Chelsea EPA-EFE/Neil Hall

Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, segir að það sé þægilegra að vinna með Romelu Lukaku heldur en stórstjörnunum sem hann þjálfaði hjá Paris St. Germain. Þetta kemur fram hjá miðlinum Sportweek sem er aukablað ítalska íþróttablaðsins Gazetta dello sport.

Thomas Tuchel, sem þjálfaði lið PSG áður en hann tók við Chelsea fyrr á þessu ári, hefur náð mjög góðum árangri með lið Chelsea. Liðið sigraði Meistaradeild Evrópu í vor og stefnir hátt í deildinni í vetur. Hann sagði meðal annars:

„Chelsea og PSG eru gjörólík lið þegar kemur að eiginleikum og menningu. Þegar ég stýrði PSG þá leið mér stundum eins og ég væri íþróttamálaráðherra, ég þurfti líka að passa upp á fjölskyldur leikmanna og jafnvel vini þeirra líka. Hér hjá Chelsea er mun rólegra andrúmsloft“.

Athyglisverð ummæli hjá Tuchel sem verður í eldlínunni í hádeginu í dag þegar að Chelsea fær Norwich í heimsókn. Títtnefndur Lukaku verður ekki með. Chelsea er á toppi deildarinnar með nítján stig en Norwich á botninum með tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×