Leikstjórinn Joel Souza, sem slasaðist þegar atvikið átti sér stað, sagðist í samtali við lögreglu hafa heyrt svipuhljóð og síðan hvell. Vitnisburður Souza útskýrir hvers vegna Baldwin beindi byssunni í áttina að Hutchins en ekki hvernig byssa sem sögð var „köld“ varð henni að bana.
Áður hefur verið greint frá því að viðstöddum hafði verið tilkynnt að byssan væri „köld“, það er að segja óhlaðin og þar með hættulaus, þegar harmleikurinn átti sér stað. Þetta staðfesti Souza í skýrslutöku hjá lögreglu.
Sagði leikstjórinn að byssurnar hefðu verið kannaðar af vopnastjóra myndarinnar, Hönnuh Gutierrez-Reed, og aftur af aðstðarleikstjóranum Dave Halls, sem var sá sem afhenti leikurnum vopnin.
New York Times hefur hinsvegar eftir ónefndum framleiðanda Rust að borið hafi á því að ekki væri farið að reglum og að bæði Halls og Gutierrez-Reed hefðu rétt leikurum skotvopn.
Miðillinn segir að samkvæmt gögnum frá lögreglu sat Baldwin á kirkjubekk og var að æfa að draga upp byssuna og beina henni að myndavélinni þegar atvikið átti sér stað. Souza og Hutchins voru á bakvið myndavélina að skoða hvernig þau ættu að beina henni.
Alec Baldwin was rehearsing a scene in which he draws a gun and points it at the camera when he accidentally shot and killed a cinematographer, according to an affidavit. The director of "Rust" gave the most detailed account yet of the incident. https://t.co/21JZduflJF
— The New York Times (@nytimes) October 25, 2021
Souza greinir frá því hvernig hann sá Hutchins grípa um magann og detta aftur á bak. Hann hafi síðan tekið eftir því að honum sjálfum var að blæða úr öxlinni. Lögreglumaðurinn sem tók viðtalið við Souza sagði hann hafa verið með sýnilegan áverka.
Aðspurður sagði leikstjórinn að ekkert ósætti hefði komið upp á tökustað en nokkrir starfsmenn höfðu þó gengið frá störfum. Höfðu þeir ekki fengið greitt og þá gerðu þeir athugasemdir við öryggi á tökustaðnum.
Myndatökumaðurinn Reid Russell, sagði í samtali við lögreglu að hann hefði brugðið sér frá eftir hádegismat en þegar hann kom aftur hafi Baldwin, Hutchins og Souza verið að undirbúa næsta atriði og þegar fengið skotvopnið.
Vissi hann ekki hvort byssan hefði verið athuguð.
Halls hefði tekið byssuna upp þar sem Gutierrez-Reid hefði komið henni fyrir, rétt Baldwin skotvopnið og kallað „köld byssa“. Baldwin hefði verið að fara í gegnum það hvernig hann ætlaði að draga byssuna upp þegar skotið reið af.
Að sögn Russell hafði Baldwin umgengist skotvopnið af nærgætni og tryggt að ekkert barn væri nálægt þegar hleypt var af því. Þá sagðist hann muna eftir því að hafa séð blóð á Souza og að Hutchins hefði sagt að hún finndi ekki fyrir fótleggjum sínum.