Andrea Blair, forseti alþjóðlega jarðhitasambandsins, bauð fólk velkomið á ráðstefnuna í Hörpu í morgun og vakti þar máls á því hve miklu máli smáríki skipta þegar kemur að nýsköpun á þessu sviði.
„Sjálf er ég frá Nýja-Sjálandi. Þetta eru kannski lítil lönd en við erum, í þessum bransa, stór, hvetjandi og öflug,“ segir Blair í samtali við fréttastofu.
Framlag Íslands sé þannig verulegt í þessum málaflokki.
„Ísland er land sem aðrir líta upp til, þar er mikil nýsköpun og sömuleiðis er bransinn frár á fæti og ávallt opinn fyrir nýjum hugmyndum. Ísland er óumdeildur leiðtogi á þessu sviði,“ segir Blair, sem sjálf rekur frumkvöðlafyrirtækið UpFlow á Nýja-Sjálandi.
Blair telur að jarðhiti muni skipta sköpum á komandi tímum einkum þegar við blasir orkuskortur víða um heim.
„Ekki aðeins getum við með jarðhitanum útvegað áreiðanlegt rafmagn, heldur eru tækifærin svo ótalmörg. Íslendingar eru þar í fararbroddi eins og með milliliðalausri notkun ykkar á hitanum en einnig í fyrirtækjum eins og CarbFix. Starfið sem þar er unnið í kolefnisbindingu er eitthvað sem allur heimurinn öfundar,“ segir Blair.