Fyrsta tilkynningin barst um klukkan 18 en þar var um að ræða hnupl í matvöruverslun í Hafnarfirði. Sá grunaði var búinn að koma hinum stolna varningi fyrir í bifreiða vinar síns, sem sagðist ekki hafa vitað að um þýfi væri að ræða. Var vörunum skilað og skýrsla rituð um málið.
Önnur tilkynningin barst rétt fyrir klukkan 20 og varðaði þjófnað úr verslun í Kópavogi. Þar var maður stöðvaður þegar hann var að yfirgefa verslunina en hann reyndist hafa stungið tuttugu 500 gr. smjörstykkjum í bakpoka sinn, að verðmæti 11.920 krónur.
Þriðja tilkynningin barst um klukkan 4 í nótt en þá var ofurölvi maður handtekinn í póstnúmerinu 105, þar sem hann hafði stungið vörum innanklæða. Var hann vistaður í fangageymslu sökum ástands.
Lögreglu barst einnig tilkynning um ofurölvi mann á veitingastað í póstnúmerinu 112. Var hann ógnandi og kominn í eldhús staðarins þegar leitað var aðstoðar lögreglu. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.