Nú er vetur genginn í garð með tilheyrandi myrkri og hálku á götum borgarinnar. Fyrir notendur rafhlaupahjóla getur færð því orðið reglulega varasöm. „Minnsta hálka getur valdið mjög slæmum slysum á rafhlaupahjólum,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, og telur bagalegt að rafhlaupahjólin séu ekki á nagladekkjum.
„Þau [rafmagnshlaupahjólin] eru þannig, að minnstu misfellur láta fólk missa jafnvægið. Það er í raun og veru miklu meiri hætta á að detta á þeim hjólum, af því dekkin eru svo lítil. Þá má lítið út af bregða af því handföngin eru svo stutt. Fólk er með hendurnar svo þétt upp að líkamanum að það nær jafnvel ekki að bera þær fyrir sig ef það dettur,“ segir Gunnar.
„Stærra vandamál en reiðhjólin“
Gunnar segir að mikilvægt að allir noti hjálm, hvort sem um reiðhjól eða rafhlaupahjól sé um að ræða. Hjálmnotkun virðist ívið minni þegar rafhlaupahjól eiga í hlut en Gunnar segir að notkun hjálma á „leiguhjólum“ sé nánast engin. Fólk eigi að nota hjálm við öll tilefni.
„Við erum að sjá miklu fleiri slys núna, alvarlegri slys, á rafhlaupahjólum heldur en reiðhjólum, sem segir okkur að þetta er orðið í raun stærra vandamál heldur en reiðhjólin. Þar af leiðandi er enn meira áríðandi að menn noti hjálm á þessum tækjum,“ segir Gunnar.
Síðasta sumar leitaði að meðaltali 1,6 á bráðamóttöku vegna slysa á rafhlaupahjólum á degi hverjum. Margir sem slösuðust voru undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Það er því ekki að ástæðulausu að Gunnar hafi áhyggjur af komandi vetri, þar sem færð verður líklega töluvert verri en var yfir sumarið.