Fótbolti

Þjálfarinn skotinn í miðjum leik

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn og dómarar hlupu af vellinum eftir að byssuskotum var hleypt af. Þjálfarinn Mauricio Romero varð fyrir skoti.
Leikmenn og dómarar hlupu af vellinum eftir að byssuskotum var hleypt af. Þjálfarinn Mauricio Romero varð fyrir skoti. Skjáskot

Leikmenn, þjálfarar og dómarar hlupu til að bjarga lífi sínu eftir að skotárás braust út á leik í argentínsku 3. deildinni í fótbolta. Þjálfari gestaliðsins varð fyrir skoti en er ekki í lífshættu.

Leikurinn var á milli Huracan Las Heras og Ferro General Pico, á heimavelli Huracan. Eins og sjá má á myndskeiðinu hér að neðan þutu allir af vellinum eftir að skotum var hleypt af á meðal „stuðningsmanna“ Huracan Las Heras.

Mauricio Romero, þjálfari gestanna, varð fyrir skoti en byssukúlan fór í öxl hans.

„Romero líður vel miðað við aðstæður og er úr lífshættu,“ sagði í yfirlýsingu frá Huracan Las Heras. Félagið harmaði hegðun stuðningsmanna sinna og skrifaði á Facebook:

„Árum saman hafa fjölskyldur verið hraktar frá áhorfendapöllunum, sem er hrikalegt. Þeir sem að eyðileggja fyrir félaginu verða að halda sig heima svo að sannir stuðningsmenn geti snúið aftur.“

Staðan í leiknum var 3-1 þegar Romero var skotinn en leiknum var að sjálfsögðu ekki haldið áfram. Ferro General Pico er í 9. sæti og Huracan Las Heras í 13. sæti, í argentínsku 3. deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×