Fótbolti

Engin meistara­þynnka í Rosengård | Ör­ebro dreymir um Meistara­deild Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar unnu enn einn leikinn og hjálpuðu Örebro í baráttunni um Meistaradeildarsæti.
Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar unnu enn einn leikinn og hjálpuðu Örebro í baráttunni um Meistaradeildarsæti. @FCRosengard

Tveir leikir fóru fram í næstsíðustu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld. Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar í nýkrýndu meistaraliði Rosengård unnu góðan sigur á Eskilstuna United og þá vann Örebro Íslendingaslaginn gegn Piteå.

Guðrún var á sínum stað í hjarta varnar Rosengård og lék allan leikinn í þægilegum 3-1 sigri. Liðið komst 3-0 yfir áður en Eskilstuna minnkaði muninn undir lok leiks.

Rosengård hefur nú þegar tryggt sér meistaratitilinn og er því í raun aðeins að keppa að stoltinu í lokaumferðinni sem fram fer næstu helgi.

Berglind Rós Ágústsdóttir lék allan leikinn í liði Örebrö sem vann mikilvægan 2-1 sigur á Piteå. Hlín Eiríksdóttir var einnig í byrjunarliði gestanna en hún var tekin af velli á 74. mínútu leiksins.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir sat allan tímann á bekk Örebro sem á enn möguleika á 3. sætinu sem gefur þátttöku í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.

Örebro er með 30 stig í 5. sæti en Eskilstuna og Íslendingalið Kristianstad eru í sætunum þar fyrir ofan með 32 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×