Innlent

Sjúkrahúsið á Akureyri komið á hættustig

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sjúkrahúsið á Akureyri hefur verið fært af óvissustigi og á hættustig eftir að einn lagðist inn á gjörgæslu smitaður af Covid-19. Sá er í öndunarvél.
Sjúkrahúsið á Akureyri hefur verið fært af óvissustigi og á hættustig eftir að einn lagðist inn á gjörgæslu smitaður af Covid-19. Sá er í öndunarvél. Vísir/Tryggvi

Sjúkrahúsið á Akureyri hefur verið fært af óvissustigi og upp á hættustig. Covid-sjúklingur liggur nú inni á gjörgæslu í öndunarvél vegna veikinnar. Mikið álag er á sjúkrahúsinu en enn hefur innlögn sjúklingsins ekki haft áhrif á aðra starfsemi spítalans.

Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á sjúkrahúsinu á Akureyri, segir í samtali við fréttastofu að dagurinn hafi farið í að kalla til viðbótarstarfsfólk til að sinna innlögnum og að manna bakvaktir næstu daga.

„Þetta hefur ekki haft áhrif á aðra starfsemi. Við höfum þurft að kalla til viðbótarstarfsfólk til að sinna innlögnum, það er samkvæmt okkar viðbragðsáætlun. Samkvæmt áætluninni mun viðbragðsstjórnin einnig funda daglega og við förum að undirbúa hvað þurfi að grea þurfi fleiri að leggjast inn,“ segir Sigurður en RÚV greindi fyrst frá.  

Eins og staðan er núna er sá sem liggur á gjörgæslu eini sjúklingurinn á sjúkrahúsinu sem smitaður er af Covid. Þó eru viðbúin rými á spítalanum þurfi fleiri að leggjast inn. 

„Við höfum haft tilbúin rými fyrir það ef við þurfum á að halda. Þá erum við einnig að huga að því að manna bakvaktir og vaktir fyrir þetta á næstu dögum á meðan þetta geisar áfram.“

Hann segir mikið álag hafa verið á spítalanum og starfsfólki þess. Mikið hafi safnast upp undanfarin tvö ár vegna faraldursins. 

„Já, það hefur verð mikið að gera. Bæði ákveðið uppsafnað eftir að við höfum verið að fókusera mest á Covid. Á síðustu tveimur árum höfum við þurft að fresta valkvæðum aðgerðum sem hafa verið að koma til okkar undanfarið. Það virðist vera að fólk hafi ekki verið í sama mæli að leita sér læknisaðstoðar á meðan þetta ástand var,“ segir Sigurður. 

Hann vonast til að þetta muni ekki hafa frekari áhrif á aðra starfsemi spítalans. 

„Eins og er erum við að reyna að komast hjá því og vinna þetta án þess. En það fer eftir því hvað þetta verður umfangsmikið hjá okkur á næstu dögum og vikum.“


Tengdar fréttir

Til skoðunar að bjóða öllum þriðja skammt bóluefnisins

Líklegt er að fljótlega verði hafist handa hér á landi við að bjóða öllum örvunarbólusetningu með bóluefni Pfizer segir sóttvarnalæknir í pistli sem hann birti á covid.is. Örvunarskammturinn verði veittur að minnsta kosti fimm til sex mánuðum eftir aðra bólusetningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×