Í fréttum Stöðvar 2 voru sýndar myndir frá þverun Þorskafjarðar, sem er einn þriggja verkhluta sem komnir eru í gang í endurnýjun Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Fyrst var kafli í Gufudal kláraður en auk Þorskafjarðarbrúar er búið að bjóða út kafla í Djúpafirði.

Og núna er komið að umdeildasta áfanganum; leiðinni um sjálfan Teigsskóg, sem lýst hefur verið sem sögunni endalausu. Það hyllir undir upphafið að endinum.
„Núna næst stefnum við að því að bjóða út Teigsskóginn sjálfan, frá Þórisstöðum að Hallsteinsnesi. Og helst bara núna - í haust,“ segir Sigurþór Guðmundsson, verkefnisstjóri Vegagerðarinnar í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði.
Útboðið segir Sigurþór að verði auglýst annaðhvort í þessum mánuði eða þeim næsta.
„Þetta tekur tvo mánuði að fara í gegnum svona útboð og samninga. Og svo þarf náttúrlega verktakinn að koma sér fyrir.“

-Hvenær megum við búast við því að vinnuvélarnar verði komnar í Teigsskóg?
„Ég er nú frekar óþolinmóður í þessu þannig að ég er nú að vonast til þess að það yrði þá bara.. í mars,“ svarar Sigurþór.
Gufudalsveitin ásamt Dynjandisheiði eru tveir síðustu malarkaflarnir á vesturleiðinni til Ísafjarðar, samtals 57 kílómetra langir. Í síðustu viku kom fram að Vegagerðarmenn undirbúa núna næsta útboðsáfanga á Dynjandisheiði. Þeir segjast markvisst stefna að því að innan þriggja ára verði Vestfjarðahringurinn allur kominn með bundið slitlag.
„Við erum sem sagt að horfa til þess að vera búnir 2024,“ segir verkefnisstjóri Vegagerðarinnar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: