Fótbolti

Engir áhorfendur á leik Íslands í Rúmeníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verða engir áhorfendur á næsta leik Íslands í undankeppni HM.
Það verða engir áhorfendur á næsta leik Íslands í undankeppni HM. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu þarf ekki að hafa mikla áhyggjur af stuðningi rúmenskra áhorfenda á leik sínum í Búkarest á fimmtudaginn eftir viku.

Það kom fram á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í dag að engum áhorfendum verði leyft að mæta í stúkuna á þessum leik í undankeppni HM.

„Við fengum þau skilaboð í vikunni að leikurinn við Rúmeníu verður leikinn án áhorfenda. Ég veit ekki hvort þið hafið verið búnir að fá veður af því,“ sagði Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ.

Rúmenar hafa farið sérlega illa út úr kórónveirusmitum í haust og það rýkir neyðarástand á yfirfullum sjúkrahúsum landsins.

Leikurinn fer fram á á National Arena í Búkarest fimmtudaginn 11. nóvember og er fyrri leikur íslenska liðsins í þessum glugga.

Rúmenar fengu tæplega fjórtán þúsund manns á síðasta heimaleik sinn þar sem liðið vann 1-0 sigur á Armeníu.

Ísland á enn smá von um að tryggja sér sæti á HM en til þess þarf liðið að vinna Rúmena og vinna líka upp forskot Rúmena í markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×