Erlent

Anders­son tekin við sem for­maður af Löfven

Atli Ísleifsson skrifar
Magdalena Andersson hefur gegnt embætti fjármálaráðherra landsins síðustu sjö ár. Góðar líkur eru á að hún verði fyrsta konan til að taka við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar.
Magdalena Andersson hefur gegnt embætti fjármálaráðherra landsins síðustu sjö ár. Góðar líkur eru á að hún verði fyrsta konan til að taka við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar. EPA

Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, var í gær kjörin formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins á landsþingi flokksins í Gautaborg. Hún tekur við embættinu af Stefan Löfven sem tók á sínum tíma við stöðunni af Håkan Juholt árið 2012.

Ekki kom á óvart að Andersson tæki við sem formaður flokksins en 26 flokksfélög Jafnaðarmannaflokksins höfðu öll tilnefnt Andersson sem nýjan formann. Löfven tilkynnti í haust að hann hygðist hætta sem formaður flokksins og svo forsætisráðherra á landsþinginu sem nú stendur yfir.

Flest bendir til að Andersson muni svo taka við sem forsætisráðherra Svíþjóðar á næstu dögum þó að ekkert sé gefið í þeim efnum. Andersson þarf fyrst að tryggja sér stuðning þingflokka þeirra flokka sem verja minnihlutastjórn Jafnaðarmanna og Græningja vantrausti, það er Miðflokksins og Vinstriflokksins.

Forseti sænska þingsins mun líklegast tilnefna Andersson sem forsætisráðherra í næstu viku og þarf meirihluti þingsins að umbera Andersson sem forsætisráðherra, það ekki greiða atkvæði gegn henni, til að hún geti tekið við forsætisráðherraembættinu af Löfven. Gangi það eftir yrði hún fyrsta konan til að gegna forsætisráðherraembættinu í Svíþjóð.

Hin 54 ára Andersson hefur gegnt embætti fjármálaráðherra landsins síðustu sjö ár.

Þingkosningar fara fram í Svíþjóð haustið 2022.


Tengdar fréttir

Til­nefna Anders­son sem nýjan for­mann sænskra Jafnaðar­manna

Undirbúningsnefnd á vegum sænskra Jafnaðarmanna hefur tilnefnt fjármálaráðherrann Magdalenu Andersson til að verða næsti formaður flokksins. Framundan er landsþing flokksins í byrjun nóvember þar sem arftaki Stefans Löfven forsætisráðherra verður kjörinn.

„Nískasti fjár­mála­ráð­herra ESB“ lík­legastur til að taka við

Stefan Löfven greindi frá því um síðustu helgi hann ætli sér að láta af störfum sem forsætisráðherra Svíþjóðar í haust. Hann muni ekki bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku í Jafnaðarmannaflokknum á landsþingi í nóvember. Skiljanlega eru farnar af stað miklar umræður um hver muni taka við formennsku í flokknum og yrði þá í kjörstöðu til að taka einnig við embætti forsætisráðherra landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×