Innlent

Sextán ára og eldri fái örvunarskammt

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá bólusetningu í Laugardalshöllinni fyrr á árinu.
Frá bólusetningu í Laugardalshöllinni fyrr á árinu. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, mælir með því að allir sextán ára og eldri fái þriðja skammt bóluefnis. Veita eigi þann skammt sex mánuðum frá grunnbólusetningu gegn Covid-19.

Í tilkynningu á vef Landlæknis segir að Covid-19 tilfellum haldi áfram að fjölga og farið sé að bera á auknum alvarlegum veikindum, innlögnum og aukinni þörf fyrir gjörgæslumeðferð.

Þess vegna sé gagnsemi örvunarbólusetningar til að efla varnir fólks orðin klár.

Bóluefni frá Pfizer/BioNTech verður notað í þessar bólusetningar en einnig er til bóluefni frá Moderna sem gæti verið notað.

Í tilkynningunni segir einnig að þátttaka hafi verið dræm meðal hópa sem hafi verið skilgreindir í forgangi fyrir þriðja skammt, miðað við þátttöku í grunnbólusetningu. Á sama tíma séu fleiri og fleiri sem nái sex mánaða markinu og fái ekki örvunarskammt, þó þeir óski eftir því.

Heilsugæslan vinnur að því að auka getu til að bólusetja fleiri og er búist við því að nægilegt bóluefni sé til eða væntanlegt svo hægt verði að bólusetja alla sem nái þessum tímamótum fyrir áramót.

„Til hagræðingar verður lágmarkstíminn stilltur á 5 mánuði þar sem mjög margir ná 6 mánaða markinu milli jóla og nýárs. 70 ára og eldri og ónæmisbældir einstaklingar skv. skilmerkjum sóttvarnalæknis óháð aldri geta þó fengið þriðju bólusetninguna þegar 3 mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu vegna aukinnar áhættu á ófullnægjandi svari við tveimur bólusetningum,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×