Fótbolti

Southgate: Klopp hættir aldrei að skjóta

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Gareth Southgate er þjálfari enska landsliðsins
Gareth Southgate er þjálfari enska landsliðsins EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, er orðinn langþreyttur á pillunum sem Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, sendir honum reglulega í fjölmiðlum.

Ástæða nýjustu ummæla Klopp er sú að Southgate notaði bakvörðinn Trent Alexander-Arnold á miðjunni í síðasta leik. Klopp var ekki ánægður með að Southgate hafi spilað honum út úr stöðu og kallaði Klopp bakvörðinn þann besta í heiminum.

Þar áður valdi Southgate ekki varnarmanninn Joe Gomez sem er á mála Liverpool í landsliðshópinn. Það fór í taugarnar á Klopp sem benti á að John Stones hefði verið valinn frekar. Ummæli Klopp vöktu nokkra furðu enda hefur Gomez ekki verið fastamaður í Liverpool liðinu á þessu tímabili.

„Nei, ég skil ekki hvers vegna Klopp er alltaf að senda mér sneiðar. Þú verður að spyrja hann hvers vegna. Fyrir mér hefur okkur alltaf komið vel saman“, sagði Southgate við breska fjölmiðla á blaðamannafundi.

Southgate hefur sagst setja það í forgang að eiga gott samband við stjórana í deildinni. Það geti þó reynst snúið því starfsöryggi þeirra er ekki mikið og þeir eru oft látnir fara með litlum fyrirvara. Southgate benti einmitt á þessa staðreynd.

„Ég er samt ekki að segja að það sé að fara að gerast hjá Jurgen Klopp“, sagði Southgate og hló við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×