Jón Baldvin var fyrst ákærður í tengslum við málið árið 2019 en Carmen sakaði Jón um að hafa strokið rass hennar á heimili hans á Spáni í júní 2018. Var hún þá stödd ásamt móður sinni í matarboði á vegum Jóns Baldvins.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur er vísað til þess að vitnisburður Laufeyjar, móður Carmenar, hafi verið óstöðugur og lýsing hennar af atvikum málsins ekki í samræmi við vitnisburð Carmenar.
Neitun Jóns Baldvins fengi aftur á móti stoð í vitnisburði Bryndísar Schram, eiginkonu Jóns, og nágrannakonu þeirra.
Dröfn Kærnested, aðstoðarsaksóknari hjá Héraðssaksóknara, segir niðurstöðuna ekki í samræmi við það sem ákæruvaldið lagði upp með.
„Héraðssaksóknari taldi málið sterkt, þegar að ákvörðun var tekin um að gefa út ákæru í málinu og það var ekkert sérstakt sem breyttist við meðferð málsins fyrir dómi að því leiti,“ segir Dröfn en hún getur ekki sagt til um hvort málinu verði áfrýjað.
„Þetta er alla vega ekki í samræmi við það eins og ákæruvaldið lagði upp með málið en við eigum eftir að fara bara betur yfir niðurstöðu dómsins og á endanum er það ríkissaksóknari sem tekur ákvörðun um áfrýjun,“ segir Dröfn.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Jóns Baldvins, segir að það hafi verið rétt niðurstaða að sýkna. „Þetta er hárrétt niðurstaða, dómurinn er vel rökstuddur og lögfræðilega réttur,“ segir Vilhjálmur.
Ákæruvaldið hefur nú fjórar vikur til að ákveða hvort málinu verði áfrýjað til Landsréttar en Vilhjálmur telur ólíklegt að svo verði.
„Ég get auðvitað ekki svarað fyrir það en miðað við það hvernig dómurinn er úr garði gerður, réttur dómur og vel rökstuddur, að þá tel ég það ólíklegt,“ segir Vilhjálmur.