Þetta segir Drífa á Facebook þar sem hún deilir frétt Mbl um uppbyggingu Play í Litháen. Drífa segir það rökrétta framvindu að forsvarsmenn flugfélagsins leiti lægri launa erlendis. Viðskiptamódel Play gangi út á lækkun launakostnaðar og segir Drífa að til þess hafi félagið lagt til hliðar samskipti á vinnumarkaði og brotið allar reglur. Félagið hefði sölsað undir sig heilt stéttarfélag.
„Play er stórhættulegt íslensku launafólki, ekki bara flugfreyjum og -þjónum heldur öllum. Það er engin tilviljun að miðstjórn ASÍ og formannafundur hefur hvatt til sniðgöngu á félaginu, það er ekki yfirlýsing sem gefin er á hverjum degi,“ segir Drífa.
ASÍ og Play hafa átt í deilum á undanförnum mánuðum vegna kjaramála flugfreyja og flugþjóna. ASÍ hefur haldið því fram að kjör þessa starfsfólk séu of lág og hafa forsvarsmenn ASÍ hafa áður hvatt Íslendinga til að sniðganga Play.
Deilurnar hafa meðal annars snúið að Íslenska flugstéttafélaginu (ÍFF), sem áður hét Íslenska flugmannafélagið. ASÍ skilgreinir ÍFF sem „gult stéttarfélag“ með beina tengingu við atvinnurekandann. Því hefur ÍFF mótmælt.
Í gær sagði ASÍ frá því að stjórn Norræna flutningamannasambandsins (NTF) hefði neitað ÍFF um inngöngu vegna „augljósra galla“ á kjarasamningi félagsins við umbjóðendur sína sem starfa hjá Play.
Sjá einnig: Íslenska flugstéttafélaginu neitað um inngöngu í Norræna flutningamannasambandið
Harma ákvörðunina og halda baráttunni áfram
Stjórn ÍFF segist harma þá ákvörðun stjórnar Norræna flutningamannasambandsins (NTF) að neita þeim um inngöngu og segist ætla að halda baráttu fyrir sína félagsmenn.
Meðlimir ÍFF eru 81, samkvæmt svörum Vignis Arnar Guðnasonar, formanns, og Friðriki Má Ottesen, varaformanni, við fyrirspurn Kjarnans.
Í svari við fyrirspurn Vísis um ákvörðun NTF segir stjórn ÍFF að þau harmi niðurstöðuna mjög. Á árum áður, fyrir gjaldþrot WOW air hafi ÍFF verið í NTF og í Evrópska- og Alþjóðlega flutningamannasamböndunum.
„Á þessum árum átti Íslenska flugmannafélagið mjög farsælt samstarf við þessi sambönd og í gegnum þau sérstaklega góð samskipti við Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) sem og önnur Norræn og evrópsk systurfélög,“ segir í svarinu.
Þá segir að stjórn NTF hafi hafnað umsókn ÍFF vegna mótmæla Flugvirkjafélags Íslands og Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
„ÍFF mun ekki leggja árar í bát og ætlar að halda áfram sinni stéttarfélags baráttu fyrir sína félagsmenn í hvívetna.“