Fótbolti

Hvað þarf að gerast í dag til að Ísland eigi enn von um að komast á HM í Katar?

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland hefur fagnað tveimur öruggum sigrum á Liechtenstein, gert jafntefli við Armeníu og Norður-Makedóníu á heimavelli, en tapað fjórum leikjum.
Ísland hefur fagnað tveimur öruggum sigrum á Liechtenstein, gert jafntefli við Armeníu og Norður-Makedóníu á heimavelli, en tapað fjórum leikjum. vísir/vilhelm

Óhætt er að segja að möguleikar Rúmeníu séu margfalt betri en Íslands á að komast á HM karla í fótbolta í Katar á næsta ári. Liðin mætast í Búkarest í kvöld í næstsíðustu umferðinni í J-riðli undankeppninnar.

Þýskaland hefur þegar tryggt sér sigur í riðlinum og farseðilinn á HM. Baráttan um 2. sæti, sem gefur þátttökurétt í umspili um sæti á HM, er hins vegar afar jöfn og spennandi.

Það þýðir þó ekki að Ísland eigi raunhæfa möguleika á að ná 2. sætinu. Aðeins fræðilega. Pínulitla. Agnarsmáa. 

Rúmenía er með 13 stig í 2. sæti, Norður-Makedónía og Armenía eru með 12 stig hvort, og Ísland er með 8. Þýskaland er efst með 21 stig og Liechtenstein neðst með 1 stig.

Þetta þýðir það að til að Ísland eigi enn möguleika á að ná 2. sæti eftir leiki dagsins þá þarf liðið að vinna Rúmeníu, og Armenía og Norður-Makedónía að gera jafntefli í Jerevan.

Ef þessi litli draumur verður að veruleika verður staðan í baráttunni um 2. sæti þessi, fyrir lokaumferðina á sunnudaginn:

Norður-Makedónía 13, Rúmenía 13, Armenía 13, Ísland 11 (Heildarmarkatala ræður stöðu ef lið eru jöfn að stigum).

Þyrftu alltaf að treysta á hjálp frá Liechtenstein

Ísland þyrfti þá svo að vinna útisigur gegn Norður-Makedóníu á sunnudaginn og treysta á hagstæð úrslit í leik Armeníu gegn Þýskalandi og Rúmeníu gegn Liechtenstein.

Þó að erfitt sé að sjá fyrir sér að Ísland, sem aðeins hefur unnið sigra gegn Liechtenstein í keppinni til þessa, vinni Rúmeníu og Norður-Makedóníu er það ekki það fjarstæðukenndasta í þessu dæmi.

Það fjarstæðukenndasta í þessu öllu saman er að Rúmenía vinni ekki gegn Liechtenstein á útivelli. Liechtenstein hefur þó náð í eitt stig í keppninni til þessa, gegn Armeníu á útivelli. Ef að Ísland getur lagað markatöluna nógu mikið í samanburði við Rúmeníu í kvöld (Rúmenía er með +3 en Ísland -4) er möguleiki á að það dygði Íslandi að Liechtenstein næði jafntefli gegn Rúmeníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×