Fótbolti

Birkir má ekki fá spjald í kvöld ætli hann að slá lands­leikja­metið á þessu ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason hefur verið fyrirliði íslenska landsliðsins í síðustu landsleikjum.
Birkir Bjarnason hefur verið fyrirliði íslenska landsliðsins í síðustu landsleikjum. Vísir/Jónína Guðbjörg

Birkir Bjarnason getur jafnað landsleikjamet Rúnars Kristinssonar í Búkarest í kvöld og slegið það á sunnudaginn kemur.

Birkir hefur leikið 103 A-landsleiki fyrir Íslands en Rúnar Kristinsson hefur verið einn á toppnum með 104 landsleiki í mjög langan tíma.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á eftir tvo leiki í undankeppni HM 2022, annar þeirra fer fram í Rúmeníu í kvöld og hinn í Norður-Makedóníu á sunnudaginn.

Birkir má hins vegar ekki fá spjald í leiknum í kvöld því þá verður hann í leikbanni í leiknum á móti Norður-Makedóníu. Það þýddi að hann gæti ekki bætt landsleikjamet Rúnars á þessu ári.

Birkir fékk gult spjald í tapleiknum á móti Þýskalandi á Laugardalsvelli en tvö gul spjöld þýða einn leik í bann.

Fari svo að Birkir missir af leiknum á sunnudaginn og Birkir Már Sævarsson spilar báða leikina þá myndu þrír menn enda árið jafnir með 104 landsleiki.

Birkir Bjarnason fór fram úr nafna sínum þegar Birkir Már tók út leikbann í síðasta leik íslenska liðsins.

Rúnar Kristinsson hefur verið einn efstur á listanum yfir flesta landsleiki fyrir Ísland síðan að hann sló leikjamet Guðna Bergssonar í leik á móti Úkraínu á Laugardalsvellinum 8. september 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×