Fótbolti

Norður-Makedónía slökkti í HM draumum Íslendinga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Norður-Makedónía vann afar öruggan sigur í kvöld og slökkti þar með í HM draumum Íslendinga.
Norður-Makedónía vann afar öruggan sigur í kvöld og slökkti þar með í HM draumum Íslendinga. Hrach Khachatryan/DeFodi Images via Getty Images

Nú rétt í þessu lauk fjórum leikjum í undankeppni HM 2022 sem fram fer í Katar. Í J-riðli okkar Íslendinga unnu Norður-Makedónar öruggan 5-0 útisigur gegn Armenum og því er veik von Íslands um sæti á HM endanlega úti.

Aleksandar Trajkovski kom gestunum frá Norður-Makedóníu yfir eftir rúmlega tuttugu mínútna leik og tíu mínútum fyrir hálfleik tvöfaldaði Enis Bardhi forystu þeirra með marki eftir stoðsendingu frá Eljif Elmas.

Bardhi var svo aftur á ferðinni á 67. mínútu þegar hann breytti stöðunni í 3-0 af vítapunktinum, áður en Milan Ristovski kom gestunum í 4-0 rúmum tíu mínútum fyrir leikslok.

Enis Bardhi fullkomnaði svo þrennu sína á lokamínútu venjulegs leiktíma og gulltryggði þar með öruggan 5-0 sigur Norður-Makedóníu.

Norður-Makedónía er nú í öðru sæti J-riðils með 15 stig eftir níu leiki, sjö stigum á undan íslenska liðinu sem getur mest fengið sex stig í viðbót. Sú veika von sem við Íslendingar höfðum á að komast á HM er því úti.

Í B-riðli tapaði topplið Svía óvænt gegn Georgíu 2-0. Khvicha Kvaratskhelia skoraði bæði lið Georgíumanna í seinni hálfleik, en Svíar eru enn á toppi riðilsins, í það minnsta tímabundið.

Þá vann Luxemborg góðan 3-1 sigur gegn Asebaídsjan í A-riðli eftir að þeir síðarnefndu þurftu að leika manni færri seinustu 70 mínútur leiksins, og Rússar eru svo gott sem öruggir með efsta sæti H-riðils eftir 6-0 stósigur gegn Kýpur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×