Fótbolti

„Hefði verið æðislegt að setja eitt í andlitið á þeim“

Sindri Sverrisson skrifar
Alfons Sampsted hefur nú leikið sjö leiki fyrir A-landslið Íslands en hann var áður fyrirliði U21-landsliðsins.
Alfons Sampsted hefur nú leikið sjö leiki fyrir A-landslið Íslands en hann var áður fyrirliði U21-landsliðsins. Getty/Boris Streubel

Alfons Sampsted mætti fullur sjálfstrausts til leiks með Íslandi gegn Rúmeníu í undankeppni HM í fótbolta í kvöld eftir gott gengi með liði Bodö/Glimt. Hann segir markalaust jafntefli hafa verið sanngjarna niðurstöðu í kvöld.

„Mér leið sjálfum ágætlega inni á vellinum. Við lögðum upp með að klára grunnvinnuna í dag, halda hreinu og vera þéttir til baka. Í því kerfi fannst mér ganga fínt, ganga vel að ná tengingu við aðra leikmenn, og þetta var ágætis leikur í kvöld,“ sagði Alfons í samtali við RÚV.

„Þessi leikur var ekkert svakalega opinn. Við fengum nokkur góð færi í fyrri hálfleik, líka í seinni. Þeir fá líka góð færi. Þetta er lokaður leikur og menn að þreifa hver á öðrum. Við erum að reyna að læra hundrað prósent inn á okkar kerfi og þetta var fínn leikur. Við vorum ekki mikið betri en við vorum ágætir,“ sagði Alfons við RÚV.

Arnar Þór Viðarsson var spurður að því á blaðamannafundi í aðdraganda leiksins hvort að hann liti á Alfons sem sóknarbakvörð en þjálfarinn sagði það af og frá. Alfons hefði alltaf verið mjög góður varnarlega. Sjálfur titlaði Alfons sig svo „varnarbakvörð“ í viðtalinu í kvöld:

„Það er frábært að halda núllinu. Sem varnarbakvörður þá finnst mér það frábært. Það hefði verið æðislegt að setja eitt í andlitið á þeim en jafntefli er svo sem alveg sanngjarnt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×