Erlent

Trump skilur að stuðningsmenn sínir hafi viljað hengja Pence

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump með Pence þegar allt lék í lyndi.
Trump með Pence þegar allt lék í lyndi. Vísir/EPA

Það var heilbrigð skynsemi hjá stuðningsmönnum Donalds Trump að kyrja um að þeir ætluðu sér að hengja Mike Pence, varaforseta, þegar þeir réðust á bandaríska þinghúsið í janúar, að mati fyrrverandi Bandaríkjaforsetans.

Pence hafði umsjón með atkvæðagreiðslu í þinginu um staðfestingu úrslita forsetakosninganna 6. janúar þegar æstur múgur stuðningsmanna Trump braut sér leið inn í bygginguna. Stöðva þurfti atkvæðagreiðsluna og fylgdi leyniþjónstan Pence og þingmönnum í skjól.

Trump hafði þá um marga mánaða skeið fóðrað stuðningsmenn sína á lygum, fyrst um að brögð yrðu í tafli í forsetakosningunum en síðar að stórfelld svik hefðu kostað hann endurkjör. Ásakanir þáverandi forsetans voru algerlega stoðlausar. Sömuleiðis fullyrðingar hans um að Pence gæti komið í veg fyrir að úrslitin yrðu staðfest.

Því voru margir stuðningsmenn forsetans Pence ævareiðir en hann hafði lýst því yfir að hann ætlaði ekki að standa í vegi fyrir staðfestingu úrslitanna. Múgurinn kyrjaði þannig um að hann ætlaði að hengja Pence. Einhverjir úr hópnum reistu meðal annars gálga fyrir utan þinghúsið.

Í viðtali við ABC-sjónvarpsstöðina í tengslum við nýja bók fréttamannsins Jonathans Karl sagðist Trump engu að síður aldrei hafa óttast um öryggi Pence. Honum hafi skilist að hann væri í góðu ástandi og nyti góðrar verndar.

Þá sýndi Trump slagorðum lýðsins um að hengja varaforseta hans fullan skilning.

„Vegna þess að það er heilbrigð skynsemi, Jon. Það er heilbrigð skynsemi sem þú átt að verja. Hvernig getur þú, ef þú veist að það var svindl í kosningunum, hvernig getur þú samþykkt sviksamlegar kosningar á þingi? Hvernig getur þú gert það?“ spurði Trump sem heldur sig enn fast við sinn keip um að brögð hafi verið í tafli þrátt fyrir dómstólar og opinberar rannsóknir hafi ekki fundið neitt fót fyrir þeim ásökunum hans.

Washington Post segir að Trump hafi talað skýrt um það í viðtalinu að hann hafi viljað að Pence ógilti niðurstöður í forsetakosningunum í fimm ríkjum þar sem Joe Biden fór með sigur af hólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×