Fótbolti

Alexandra kom inn á í stórsigri Frankfurt

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alexandra í leik með íslenska landsliðinu.
Alexandra í leik með íslenska landsliðinu. Tim Clayton/Corbis via Getty Images

Alexandra Jóhannsdóttir kom inn á sem varamaður fyrir Eintracht Frankfurt er liðið vann 6-0 stórsigur gegn Jena í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Barbara Dunst kom Frankfurt yfir strax á sjöundu mínútu áður en Laura Freigang tvöfaldaði forystu heimakvenna rúmum tíu mínútum síðar.

Denise Landmann varð svo fyrir því óhappi að skora sjálfsmark á 27. mínútu og Lara Prasnikar skoraði fjórða mark Frankfurt stuttu fyrir hálfleik.

Barbara Dunst bætti við fimmta marki Frankfurt, og sínu öðru marki á 49. mínútu, áður en Shekiera Martinez gulltryggði 6-0 sigur liðsins þremur mínútum síðar.

Alexandra kom inn á sem varamaður á 74. mínútu fyrir Frankfurt, en liðið situr nú í öðru sæti þýsku deildarinnar með 18 stig eftir átta leiki, með jafn mörg stig og topplið Bayern, en með verri markatölu.

Jena situr hins vegar í næst neðsta sæti deildarinnar með aðeins tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×