Fótbolti

Hetja Serba hljóp um á nærbuxunum eftir leik og drakk Coke „fyrir Ronaldo“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleksandar Mitrovic reif sig úr að ofan þegar hann fagnaði markinu mikilvæga í Lissabon.
Aleksandar Mitrovic reif sig úr að ofan þegar hann fagnaði markinu mikilvæga í Lissabon. EPA-EFE/ANTONIO COTRIM

Aleksandar Mitrovic var maðurinn sem skaut Serbíu inn á HM í fyrsta sinn þegar hann skoraði sigurmark liðsins í úrslitaleik riðilsins á móti Portúgal. Portúgal nægði jafntefli en Mitrovic skoraði sigurmark Serba á 90. mínútu.

Serbía hefur aldrei áður komist á heimsmeistaramótið sem sjálfstæð þjóð en Serbar voru náttúrulega hluti af Júgóslavíu sem fór margoft á HM á sínum tíma. Þetta var engu að síður risastund fyrir serbnesku þjóðina.

Serbía var ekki aðeins stigahærri en Portúgal í riðlinum heldur skoraði Aleksandar Mitrovic líka tveimur mörkum fleiri en Cristiano Ronaldo og varð um leið markahæstur í riðlinum með átta mörk.

Mitrovic spilar með Fulham í ensku b-deildinni og er kominn með tuttugu mörk í sautján leikjum á þessu tímabili. Sannarlega leikmaður sem ætti að vera í betri deild.

Hegðun Mitrovic eftir Portúgalsleikinn hefur einnig fengið athygli og þar þykir hann vera að að strá salti í sár Ronaldo.

Hetja Serba hljóp nefnilega um á nærbuxunum eftir leik en það sem meira er að hann drakk Coke að því virðist fyrir Cristiano Ronaldo.

Ronaldo fjarlægði Coke-flöskur af borðinu sínu á blaðamannafundi á EM síðasta sumar og sagði að fólk ætti að drekka vatn en ekki Coke.

Mitrovic kok aftur inn á völlinn eftir að hann var kominn úr öllu nema nærbuxum og nærbol og hljóp um með serbneska fánann og fagnaði með þeim stuðningsmönnum sem voru enn á svæðinu svo lengi eftir leikinn.

Það fylgir líka sögunni að þetta var ekki heima í Belgrad heldur á Leikvangi ljósanna í Lissabon í Portúgal.

Það má sjá þetta hér fyrir ofan á myndbandi frá Sky Sports.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×