Fótbolti

Gagnrýnir tilgangslausa landsleiki eftir að England skoraði tíu gegn San Marinó

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Englendingar fagna einu tíu marka sinna gegn San Mar­ínó-mönnum.
Englendingar fagna einu tíu marka sinna gegn San Mar­ínó-mönnum. getty/Eddie Keogh

Michael Owen, einn markahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins, segist vera farinn að missa áhugann á landsliðsbolta eftir 0-10 risasigur Englands á San Marinó í undankeppni HM 2022 í gær.

Englendingar tryggðu sér farseðilinn til Katar með sigrinum stóra í gær. Þetta var í fyrsta sinn síðan 1964 sem enska landsliðið skorar tíu mörk í leik.

Owen skilur ekki tilganginn með leikjum eins og þeim sem fór fram í San Marinó í gær, þar sem getumunurinn á liðunum er jafn mikill og raun bar vitni.

„Er að missa áhugann á landsliðsbolta fyrir utan stórmótin. Ég held að margir séu sama sinnis. Helmingur þessara leikja eru tilgangslausir. Breytinga er þörf,“ skrifaði Owen á Twitter.

San Marinó er eitt lélegasta landslið heims og hefur aldrei unnið keppnisleik í sögunni. Eini sigur þeirra kom gegn Liechtenstein í vináttulandsleik 2004.

Staðan í hálfleik í leiknum í gær var 0-6. Harry Kane, fyrirliði Englands, skoraði fernu í fyrri hálfleik og er nú kominn með 48 landsliðsmörk, jafn mörg og Gary Lineker gerði á sínum tíma. Kane vantar aðeins fimm mörk til að jafna markamet Waynes Rooney með landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×