Þetta kom fram í máli Ingu Sæland í Reykjavík síðdegis í dag þar sem hún var spurð út í vinnu nefndarinnar, sem er á lokametrunum. Inga er fulltrúi Flokks fólksins í nefndinni.
Hafa einhver gögn komið fram sem varpa rýrð á öryggi kjörgagna, að átt hafi verið við þau að einhverju leyti?
„Nei, það er ekkert slíkt sem hefur komið fram. Við vitum að þau voru óvarin,“ sagði Inga og vitnaði þar í það sem fram hefur komiðum að talningasalurinn í Norðvesturkjördæmi þar sem atkvæði voru geymd að lokinni talningu hafi ekki verið innsiglaður.
„Þarna voru fimm vefmyndavélar, lögreglan er búin að fara yfir. Við erum með myndskeið og myndefni. Við erum búin að teikna upp tímalínu og annað slíkt þannig að við sjáum ferðir fólks um svæðið. En því miður var engin myndavél á kjörgögnin en það breytir ekki þeirri staðreynd að við höfum ekki getað fundið neitt sem að ætla má að hafi verið þess valdandi að seinni talningin eigi ekki að standa, ég er bara þar,“sagði Inga.
Umrædd seinni talning er sú endurtalning sem framkvæmd var í Norvesturkjördæmi eftir að ábending barst um að afar mjótt væri á munum eftir fyrstu talningu. Endurtalningin reyndist örlagarík því að eftir hana hliðruðust jöfnunarsæti þannig að fimm þingmenn sem töldu sig hafa verið kjörna á Alþingi duttu út fyrir aðra fimm þingmenn.
Aðspurð um hvort að Inga styddi þá að seinni talningin myndi gilda sagðist hún vera á þeirri skoðun, með ákveðnum fyrirvara þó.
„Enn sem komið er en við erum ekki búin að ljúka vinnunni. Við erum að halda áfram og eigum eftir tvo, þrjá daga í viðbót. Ef það er eitthvað sem á eftir að koma fram sem ég veit ekki hvað ætti mögulega að verða þá náttúrulega getur maður skipt um skoðun en þetta er búið að vera mín skoðun, mín tilfinning núna um all nokkurt skeið.“
Það er ekkert sem að fram hefur komið í yfirreið ykkar sem að sýnir fram á að önnur talning ætti ekki að standa?
„Ekki að mínu viti.“