Fótbolti

Fögnuðu marki með því að fleygja sér í snjóinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cyle Larin fagnar seinna marki sínu fyrir Kanada gegn Mexíkó.
Cyle Larin fagnar seinna marki sínu fyrir Kanada gegn Mexíkó. afp/Jason Franson

Kanadíska karlalandsliðið í fótbolta steig stórt skref í átt að því að tryggja sér sæti á HM í Katar með sigri á Mexíkó í gær, 2-1.

Kanadamenn hafa unnið þrjá leiki í röð og eru með eins stigs forskot á Bandaríkjamenn á toppi riðilsins í Norður- og Mið-Ameríku.

Leikurinn í gær fór fram á Commonwelth leikvanginum í Edmonton. Aðstæður voru ekki þær bestu, skítkalt og ryðja þurfti snjó af vellinum fyrir leikinn.

Kanadamenn fundu sig betur í kuldanum enda öllu vanari honum en Mexíkóar. Kanada náði forystunni í uppbótartíma fyrri hálfleik þegar Cyle Larin skoraði af stuttu færi eftir að Guillermo Ochoa varði skot Alistairs Johnston.

Larin tvöfaldaði forskotið í upphafi seinni hálfleiks þegar hann skoraði sitt annað mark eftir aukaspyrnu Stephens Eustáquio. Kanadamenn fögnuðu markinu vel og innilega í snjónum á hlaupabrautinni eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Kanada færist nær HM

Héctor Herrera minnkaði muninn í 2-1 á lokamínútu leiksins og í uppbótartíma fengu Mexíkóar tvö færi til að jafna en Kanadamenn sluppu með skrekkinn.

Með mörkunum tveimur í gær er Larin orðinn markahæstur í sögu kanadíska landsliðsins ásamt Dwayne De Rosario. Þeir hafa báðir skorað 22 landsliðsmörk. Helmingur landsliðsmarka Larins, sem leikur með Besiktas, hafa komið í undankeppni HM 2022.

Kanada hefur aðeins einu sinni komist á HM, í Mexíkó 1986. Kanadamenn eru á góðri leið með að komast á HM í Katar á næsta ári og svo halda þeir HM 2026 ásamt Mexíkóum og Bandaríkjamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×