Íslenski boltinn

Tiago snýr aftur í Fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tiago Fernandes við undirskriftina árið 2018.
Tiago Fernandes við undirskriftina árið 2018. Fram.is

Portúgalski miðjumaðurinn Tiago Manuel Silva Fernandes er snúinn aftur í raðir Fram og mun leika með liðinu í Pepsi Max deild karla á næstu leiktíð.

Frá þessu var fyrst greint á Fótbolti.net. Tiago Fernandes samdi fyrst við Fram árið 2018 og lék með liðinu það sumarið sem og það næsta. Snemma árs 2021 samdi hann við Grindavík og lék alla leiki liðsins í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð.

Hinn 26 ára gamli Fernandes hefur nú ákveðið að ganga aftur í raðir Fram og spila með liðinu í Pepsi Max deild karla. Fram er nýliði í deildinni eftir að hafa gjörsigrað Lengjudeildina á síðustu leiktíð.

Alls hefur Fernandes leikið 83 leiki hér á landi og skorað í þeim sjö mörk. Leiki hann sama leik á næsta ári og hann gerði í sumar verður hann kominn yfir 100 leiki áður en tímabilinu lýkur.

Tiago er fyrsti leikmaðurinn sem Fram fær fyrir komandi tímabil en nýliðarnir hafa misst Kyle McLagan í Víking og Harald Einar Ásgrímsson í FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×