Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið, og hefur eftir saksóknurum í málinu að maðurinn sem liggur undir grun, hinn 39 ára gamli Darrell Brooks, hafi þegar verið formlega ákærður vegna dauða þeirra fimm sem þegar hafa látist. Sjöttu ákærunni verði bætt við.
Auk hinna sex látnu slösuðust 47 aðrir þegar bílnum var ekið í gegnum skrúðgönguna í borginni Waukesha í Wisconsin.
Drengurinn sem lést í dag var átta ára og hét Jackson Sparks. Hann var staddur á skrúðgöngunni ásamt tólf ára bróður sínum, sem einnig varð fyrir bílnum.
Samkvæmt aðstandendum bræðranna fór Jackson í aðgerð á heila á sunnudaginn. Búist er við að bróðir hans, sem höfuðkúpubrotnaði, muni ná sér að fullu.

Brooks á að baki sextán ákærur frá árinu 1999. Rannsókn stóð yfir í tveimur málum sem varða hann þegar atvikið átti sér stað í gær. Í tengslum við annað þeirra er hann sakaður um að hafa keyrt bifreið sinni vísvitandi á konu að loknu rifrildi þeirra með þeim afleiðingum að hún var lögð inn á spítala.