Tveir sem voru um borð í bátnum eru í alvarlegu ástandi á sjúkrahúsi í Frakklandi vegna ofkælingar, samkvæmt frétt BBC. Annar þeirra er frá Írak og hinn er frá Sómalíu.
Eitt lík til viðbótar fannst í dag en ekki liggur fyrir hvort viðkomandi hafi verið um borð í bátnum sem fórst í gær eða einhverjum öðrum.
BBC segir fimm hafa verið handtekna vegna slyssins í gær og hafa saksóknarar í Frakklandi opnað manndráps-rannsókn vegna dauðsfallanna.
Í dag náðu um 40 farand- og flóttamenn í land við Dover en aðstæður á svæðinu voru nokkuð erfiðar. Kalt er í veðri og nokkur vindur en hann varð öflugri seinni partinn og hætti fólk við að reyna að fara yfir Ermarsundið.
Hér má sjá stutta sjónvarpsfrétt Sky News þar sem meðal annars má sjá mynd sem sögð er vera af bátnum sem fórst í gær.
Yfirvöld í Bretlandi hafa heitið því að fara í harðar aðgerðir gegn smyglurum sem flytji fólk yfir Ermarsundið. Talið er að þeir taki um þrjú þúsund pund fyrir að koma einni manneskju um borð í báta. Það samsvarar rúmum fimm hundruð þúsund krónum.
Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, mun ræða við Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands í dag, og ætlar Patel að bjóða Frökkum mikla aðstoð við að herja á smyglara.
Frakkar segjast ætla að auka öryggi við Ermasundið.
Sky News hefur eftir Darmanin að mun meiri samvinnu ríkja á milli sé þörf. Ekki bara frá Bretum heldur einnig frá Belgíu og Þýskalandi. Þar þurfi ráðamenn einnig að beita sér gegn smyglurum og koma að málefnum farand- og flóttafólks.
Í annarri frétt Sky segir að það sé gífurlega auðvelt að finna smyglara sem flytja fólk yfir Ermarsundið. Nóg sé í mörgum tilfellum að skrifa leita með orðinu „smyglari“ á samfélagsmiðlum. Auglýsingar um leiðir inn í Evrópu og Bretland séu iðulega auglýstar á samfélagsmiðlum.