Sport

Tvöfaldur Ólympíumeistari farinn í herinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haile Gebrselassie er þekktur fyrir frábæran árangur á hlaupabrautinni þar sem hann setti á sínum tíma fjölda heimsmeta.
Haile Gebrselassie er þekktur fyrir frábæran árangur á hlaupabrautinni þar sem hann setti á sínum tíma fjölda heimsmeta. Getty/Alex Grimm

Einn frægasti langhlaupari allra tíma og margfaldur meistari á stórmótum er tilbúinn að fórna lífinu fyrir þjóð sína Eþíópíu.

Haile Gebrselassie tilkynnti á dögunum að hann ætlaði að ganga til liðs við eþíópíska herinn í baráttu við uppreisnarmenn í landinu.

Gebrselassie varð tvisvar sinnum Ólympíumeistari í tíu þúsund metra hlaupi og varð einnig fjórum sinnum heimsmeistari í sömu grein.

Gebrselassie átti magnaðan feril sem sést ekki síst á því að hann setti 27 heimsmet og 61 eþíópísk met á sínum ferli allt frá 800 metra hlaupi upp í maraþonhlaup.

Flestir sérfræðingar segja að koma Gebrselassie í herinn sé aðeins táknræn til að hvetja aðra landa sína til að ganga til liðs við herinn en hann sjálfur talar um mikilvægi þess að leggja sitt að mörkum svo Eþíópía verði áfram til.

Gebrselassie trúir því að íþróttirnar snúist um frið og ást en engu að síður er hann tilbúinn að taka þetta skref.

„Hvað myndir þú gera ef tilvera landsins þíns væri í hættu,“ spurði Haile Gebrselassie blaðamann Reuters.

„Eþíópía er land sem hefur lagt mikið af mörkum til Afríku. Já þetta er fyrirmyndarland. Með því að fella Eþíópíu niður á hnén væru menn að gera það sama með öll hin Afríkulöndin. Það kemur ekki til greina,“ sagði Gebrselassie.

Gebrselassie hefur náð miklum árangri í viðskiptum síðan að hann hætti að keppa en hann er nú 48 ára gamall. Gebrselassie rekur fjölda fyrirtækja í höfuðborginni. En er hann tilbúinn að fórna lífinu?

„Þú býst við að ég segi allt til dauða. Já, það er lokafórnin í stríði,“ sagði Gebrselassie.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×