Fótbolti

Hálfsjálfvirkir rangstöðudómar næsta framtíðarskref fótboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er ekki auðvelt starf að vera með flaggið og dæma um það hvort menn séu rangstæðir eða ekki. Nú er von á meiri hjálp.
Það er ekki auðvelt starf að vera með flaggið og dæma um það hvort menn séu rangstæðir eða ekki. Nú er von á meiri hjálp. Getty/Visionhaus/

Alþjóða knattspyrnusambandið ætlar að prófa nýja útgáfu af rangstöðudómgæslu í Arabíubikar FIFA sem hefst í dag. Komi hún vel út verður hún væntanlega notuð á heimsmeistaramótinu í Katar á næsta ári.

Markmið nýju tækninnar er að hjálpa aðstoðardómurum að gera enn betur með þegar kemur að því að lyfta rangstöðuflagginu á réttum tíma.

Hálfsjálfvirkir rangstöðudómar munu nýta sér tíu til tólf myndavélar á leiknum sem munu geta safnað saman allt að 29 staðsetningarpunktum fyrir hvern leikmann og það fimmtíu sinnum á hverri sekúndu.

Gervigreind mun síðan vinna stanslaust úr þessum upplýsingum til að meta stöðu leikmanna út frá hverjum öðrum.

Eins og dómarinn fær markalínutæknina í úrið sitt þá munu aðstoðardómararnir fá skilaboð frá henni í sín úr.

Þannig að ef kerfið nemur rangstöðu þá fær aðstoðardómarinn skilaboð en það er samt undir honum komið að taka endanlega ákvörðun um hvort að leikmaðurinn hafi verið rangstæður eða ekki.

„VAR hefur haft mjög jákvæð áhrif á fótboltann og mistökum hefur fækkað. Það eru samt enn hlutir sem hægt er að næta og rangstaðan er ein af þeim hlutum,“ sagði Pierluigi Collina, yfirmaður dómaramála FIFA.

„Við gerum okkur grein fyrir því að það tekur oft lengri tíma að skoða rangstöðuna en að skoða önnur atvik sérstaklega þegar munar litlu. Við vitum líka að þessar linur eru heldur ekki hundrað prósent réttar,“ sagði Collina.

„Þess vegna er FIFA að þróa tækni sem getur gefið hraðari og nákvæmari svör. Þetta er þekkt sem hálfsjálfvirkir rangstöðudómar,“ sagði Collina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×