Verið er að endurvekja gamla hefð en sölusýningar voru haldnar fyrir jólin í Listvinasalnum á fimmta áratug síðustu aldar. Þá voru verk þekktustu listamanna þjóðarinnar sýnd samhliða verkum yngri og lítt þekktari listamanna.
Sýningarstjórar eru þeir Sigurður Atli og Leifur Ýmir sem standa á bak við Prent & Vini.
„Verkin er á breiðu verðbili frá nokkur þúsund upp í nokkur hundruð þúsund, segir Sigurður Atli í samtali við Lífið.

Um 600 verk verða til sölu á sýningunni frá þessum 200 listamönnum
„Sýningin hefur fest sig í sessi sem jólahefð, einskonar samantekt á því sem er að gerast í íslensku myndlistarlífi, þetta er svona myndlistarannáll. Við Leifur Ýmir hjá Prenti & vinum handprentuðum nokkur hundruð metra af gjafapappír í silkiþrykki og það verður boðið uppá að pakka verkunum inn á staðnum.“
Að vana verður sett upp grafíkverkstæði í Gryfjunni þar sem valdir listamenn eru fengnir til að vinna nýtt verk í upplagi á hverjum degi yfir sýningartímabilið.
„Grafíkverkstæðið í Gryfjunni býður 12 listamönnum örvinnustofudvöl á sýningartímabilinu. Tilgangurinn með því er að sýningargestir fái að skyggnast inn í vinnuferli listamannsins og skilja hvað liggur að baki verkanna,“ segir Sigurður Atli.

Sýningin er opin 12 til 17 til 17.desember og eftir það er opið til 20 á kvöldin fram að jólum. Síðasti sýningardagur er 23. desember.
Dagskrá grafíkverkstæðisins:
- 4-5.des | Almar Steinn Atlason og Hákon Bragason
- 6-7.des | Anna Júlía Friðbjörnsdóttir
- 8-9.des | Joe Keys
- 10-11.des | Anna Rún Tryggvadóttir
- 12-13.des | Margrét Blöndal
- 14-15.des | Jón B.K Ransu
- 16-17.des | Melanie Ubaldo
- 18-19.des | Baldur Geir Bragason
- 20-21.des | Kristinn Már Pálmason
- 22-23.des | Tara Njála Ingvarsdóttir og Silfrún Una Guðlaugsdóttir
Vegna fjöldatakmarkana eru gestir beðnir um að huga að persónubundnum sóttvörnum, en hámarksfjöldi er 50 manns. Á álagstímum gætu starfsmenn því beðið gesti um að hinkra í örfáar mínútur utan salarins.