Ísland fékk 56.250 í heildareinkunn, 2,625 á eftir Svíum sem urðu efstir. Þeir eru líklegastir til afreka í úrslitunum en Danir, sem hafa borið ægishjálm yfir önnur lið í karlaflokki um langt árabil, sátu eftir heima vegna kórónuveirufaraldursins.
Þetta er í fyrsta sinn í áratug sem Ísland sendir lið til leiks í karlaflokki á EM í hópfimleikum og strákarnir virtust njóta sín vel á stóra sviðinu.

Ísland byrjaði á gólfæfingunum. Þær skiluðu íslensku strákunum 18.500 í einkunn. Í 2. umferð var komið að trampólíninu. Fyrir stökkin fengu Íslendingar 18.750 í einkunn en aðeins Svíar fengu hærri einkunn á trampólíni, 20.050.
Íslendingar luku leik á dýnu þar sem þeir fengu 19.000 í einkunn, jafnhátt og Svíar. Með þeirri einkunn skaust Ísland upp úr 6. sætinu í 2. sætið.

Þar sem aðeins sex lönd sendu lið til leiks í karlaflokki fóru þau öll áfram í úrslitin sem fara fram á laugardaginn.