Stærsti skjálftinn mældist 3,6 stig og varð klukkan 17 mínútur yfir klukkan sex. Honum fylgdu síðan tíu skjálftar milli klukkan sex og átta í morgun.
„Þetta virðast ekki vera ísskjálftar heldur í eldstöðinni sjálfri,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni. Enginn gosórói sést þó enn á mælum.
„En við erum með augun límd á Grímsvötnum. Það er lítið annað að gera en að bíða og sjá,“ segir Einar Bessi.
Appelsínugulur litur í litakóða Alþjóðaflugmálastofnunarinnar þýðir: „Eldstöðin sýnir aukna virkni og vaxandi líkur á eldgosi.“

Þrjár íslenskar eldstöðvar eru núna litamerktar umfram venjulegt ástand; Grímsvötn á appelsínugulum lit og Fagradalsfjall á Reykjanesi og Askja á gulum lit. Um gulan lit segir:
"Eldstöðin sýnir merki um virkni, umfram venjulegt ástand. Eða, eftir að virknin hefur verið lækkuð frá hærra stigi: Umbrot hafa minnkað markvert en vel er fylgst með, ef vera kynni að þau aukist á ný."
Efsta stig litakóðans, rautt, táknar: „Eldgos er yfirvofandi eða hafið – líklegt er að aska berist upp í lofthjúpinn. Eða: Eldgos stendur yfir og veruleg aska berst upp í andrúmsloftið."