Samhliða innleiðingu á nýju rafrænu greiðslukerfinu Klapp voru gerðar breytingar á gjaldskrá Strætó.
Þær fela meðal annars í sér að verð á árskorti ungmenna á aldrinum 12-17 ára hækkaði úr 25 þúsund krónum í 40 þúsund krónur, sem er 60 prósent hækkun.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, er gagnrýnin á þessa hækkun í bréfi sem sent var til Strætó bs vegna hækkunarinnar. Segir hún óskiljanlegt að börn sem eru tólf ára og eldri njóti ekki meiri afsláttur en nú er gert ráð fyrir.
Í bréfinu, sem lesa má hér, vísar hún í eigendastefnu Strætó bs., þar sem meðal annars kemur fram að Þjónustusýn Strætó bs. byggist á því að íbúar kjósi að komast leiðar sinnar með strætó vegna þess að það sé hagkvæmari, umhverfisvænni og jafnvel fljótlegri kostur en að nota einkabíl.”

Bendir hún á að börn á þessum aldri séu ekki með bílpróf.
„Sú staðreynd vekur upp áleitnar spurningar um það hvort Strætó bs., ætli sér að ná áðurnefndum markmiðum í eigendastefnunni, um að sjá til þess að þeir sem hafi val um samgöngumáta, velji samt sem áður strætó sem hagkvæman kost, með því að hækka gjöld á árskortum fyrir þann hóp, sem ekki hefur val um að nota einkabíl, þ.e. ungmenni á aldrinum 12 til 17 ára.“
Áhyggjufullir foreldrar
Þá kemur fram í bréfinu að foreldrar hafi leitað til umboðsmanns vegna málsins, þar á meðal af öryrkja sem er með þrjú börn á framfæri.
„Var embættinu bentá þá staðreynd að fyrir þrjú árskort í strætó fyrir ungmenni, þarf viðkomandi foreldri að reiða af hendi 120.000 kr., sem er óviðráðanlegt og ljóst er að margir foreldrar eru í sömu stöðu, ekki síst einstæðir foreldrar, foreldrar í láglaunastörfum g foreldrar utan vinnumarkaðar.“
Vísar umboðsmaður í að sveitarfélögin sem eigi Strætó bs. beri að virða ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er meðal annars gerð krafa um að allar ákvarðanir er varði börn, byggi á því sem þeim sé fyrir bestu, að undangengnu mati á bestu hagsmunum og áhrifum þeirra ákvörðunar sem til stendur að taka hverju sinni.

Því krefur umboðsmaður stjórn og framkvæmdastjórn Strætó bs. um það hvernig viðkomandi aðilar telji umrædda hækkun samrýmist bestu hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu. Einnig hvort og þá hvernig mat hafi verið lagt á áhrif þessar ákvörðunar á börn.
„Umboðsmaður barna óskar einnig eftir skýringum stjórnar Strætó bs. á því hvernig stjórnarmenn sem þar sitja sem fulltrúar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, rökstyðja umrædda hækkun á nauðsynlegri þjónustu við börn í sveitarfélögum sem samkvæmt yfirlýsingum umræddra sveitarfélaga eru barnvæn. Ber hér sérstaklega til þess að líta að umrædd sveitarfélög hafa nú þegar fengið formlega viðurkenningu sem barnvæn sveitarfélögeða eru í slíku viðurkenningarferli.“