Tilkynningin frá skólanum barst rúmum klukkutíma áður en hún átti að mæta í næsta staðpróf. Sandra, sem stundar grunnnám í sálfræði, gagnrýnir skólann harðlega fyrir að bregðast ekki við ákalli nemenda um fjarpróf í heimsfaraldri.
Rakningateymið fór ekki fram á að nemendur færu í sóttkví í tengslum við tilfellið en þeir voru hvattir til að fara í sýnatöku ef minnstu einkenni gerðu vart við sig.
Enginn með grímu
„Ég var í prófi í dag en fékk hringingu um klukkutíma fyrir prófið þar sem mér var sagt að ég ætti ekki að mæta í bygginguna sem prófið átti að vera í vegna þess að ég hafi verið í kringum Covid-smitaðan einstakling í prófinu á fimmtudeginum. Við vorum sex með þessum einstaklingi í sérstofu, þannig að það voru fáir, en við vorum alveg þrjá tíma þarna og allir tóku af sér grímuna.
Það er fáránlegt að ætlast til þess að maður fari í staðpróf eftir að maður fréttir að maður hafi umgengist Covid-smitaðan einstakling,“ segir Sandra í samtali við Vísi.
Henni finnst tvískinnungur felast í því að biðja nemendur um að mæta í aðra stofu í nafni sóttvarnaráðstafana en á sama tíma krefjast þess að nemendur mæti í prófstofu.
„Það hefur augljóslega verið mikilvægt fyrir skólann að maður væri ekki að fara í sömu byggingu og aðrir nemendur.“

Lengi talað fyrir fjarprófum
Stúdentahreyfingarnar Vaka og Röskva hafa kallað eftir því að nemendum standi til boða að sitja fjarpróf í námskeiðum sínum vegna faraldursins, en með takmörkuðum árangri.
„Ég var sjálf að berjast fyrir heimaprófum fyrir ári og svo lendi ég í þessu. Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því hvers vegna við erum búin að vera að berjast fyrir heimaprófum,“ segir Sandra.
Sandra hefur áður veikst af Covid-19 en segir að nýlegar fréttir sýni að það útiloki alls ekki að fólk geti smitast aftur. Þá hafi hún miklar áhyggjur af föður sínum sem tilheyri áhættuhópi.
Hún gagnrýnir tímasetningu skólans í dag og telur engan vafa leika á því að þessi tilkynning hafi haft áhrif á frammistöðu sína í prófinu skömmu síðar.
„Ég gat ómögulega lært eftir að ég fékk þessar fréttir, fór bara í andlegt áfall og það var engin leið að hugga mig.“

Versta martröð nemenda
„Þetta er versta martröð hvers nemanda í heimsfaraldri, að vera nálægt smituðum einstaklingi í prófum. Núna líður mér alls ekki öruggri í byggingum skólans,“ segir Sandra en hún fer í síðasta lokaprófið sitt á fimmtudaginn. Ekki er útlit fyrir að hún fái að taka það próf heima undir rafrænu eftirliti frekar en fyrri prófin.
„Miðað við þessar fréttir þá er það eina rétta í stöðunni að hafa heimapróf sem valkost og það ætti að vera sjálfsagt í heimsfaraldri. Það er það eina rétta í stöðunni miðað við að þau eru nú þegar búin að leggja nemendur í hættu, þau eru búin að leggja pabba minn sem er í áhættuhópi í hættu.“