Atvinnulíf

Ekkert elsku mamma þegar snjóar í Bláfjöllum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans heldur í þá hefð að senda alltaf jólakort með mynd af fjölskyldunni eða börnum. Sjálf á hún öll jólakort með myndum sem hún hefur fengið í gegnum tíðina. Hvert og eitt einasta. Lilja kúrir lengur um helgar nema þegar snjóar vel í Bláfjöllum: Þá er brunað upp í fjall að skíða.
Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans heldur í þá hefð að senda alltaf jólakort með mynd af fjölskyldunni eða börnum. Sjálf á hún öll jólakort með myndum sem hún hefur fengið í gegnum tíðina. Hvert og eitt einasta. Lilja kúrir lengur um helgar nema þegar snjóar vel í Bláfjöllum: Þá er brunað upp í fjall að skíða. Vísir/Vilhelm

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans vaknar snemma, kúrir þó lengur um helgar nema þegar snjóar vel í Bláfjöllum. Lilja á enn öll jólakort með myndum sem hún hefur fengið en árlegt jólakraftaverk í vinnunni er að klára þriggja ára áætlun fyrir bankann.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Klukkan 6:50 en dett annað slagið í morgunæfingar og vakna þá um sex, mis-eldhress. Jú, annars, alltaf í góðu skapi.

Um helgar sef ég aðeins lengur, hreyfi mig og nýt þess verulega að fá mér góðan kaffibolla. En þegar snjórinn er kominn í Bláfjöll þá er ekkert elsku mamma heldur brunum við í fjallið og erum mætt fyrir tíu."

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ég græja mig, annað hvort í bankagallann eða hjólagallann ef ég ætla að hjóla í vinnuna. Svo er alltaf morgunmatur og ég renni yfir blöðin sem ég geri á gamla mátann, og gleymi ekki D-vítamíninu á veturna. Ég fæ mér fyrsta bollann í vinnunni og hann er sérstaklega góður.“

Af föstum jóla-hefðum í þínu lífi, hvaða hefð finnst þér alltaf skemmtilegust?

„Í sannleika sagt finnst mér best að slaka á og hreyfa mig um jólin, í jöfnum hlutföllum. 

En af jólahefðum þá held ég í að senda út alvöru jólakort, með mynd af fjölskyldunni eða börnunum. 

Ég verð sjálfsagt ein eftir með þessa hefð. 

En svo á ég líka jólakortin með myndum sem ég hef fengið, alveg frá upphafi, hvert eitt og einasta.“

Lilja segir skipulag í vinnunni þurfa að vera gott því bankaumhverfið er bara þannig. Sjálf er hún með 3+2 skipulag sem virkar þannig að fyrstu þrír virku dagar vikunnar fara í fasta fundi en tveir dagar eru til að grípa önnur verkefni, hitta fólk eða sinna öðru. Lilja segist löngu hætt að vera týpan sem þolir ekki að eiga ósvara tölvupósta. Fólk geti þá bara hringt ef erindið er mikilvægt. Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Það er svakalega mikið um að vera alls staðar núna og það þarf því að vera á tánum og sjá til þess að allir í bankanum hafi það sem þarf til að mæta tækifærum og sinna viðskiptavinum. 

Stóra verkefnið mitt akkúrat núna er viðskiptaáætlun næstu þriggja ára. Það er árlegt jólakraftaverk að klára þá vinnu en jafnframt er ég alveg gríðarlega stolt af því sem fer inn í áætlunina og hvernig við náum að samstilla bankann. 

Þessi vinna verður alltaf betri og það er sérstaklega gaman að vera að vinna undir nýju stefnunni okkar, Landsbanki nýrra tíma. 

Okkar meginhlutverk er að einfalda viðskiptavinum lífið. Það sem er svo skemmtilegt er að við getum öll tengt við það að einfalda lífið og svo heimfærum við það á það sem hver og einn gerir.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Góð spurning! Bankarekstur er mjög öguð starfsemi og flestar ákvarðanir eru teknar á fundum þar sem mál eru lögð fyrir. Þetta virkar mjög stíft en er gríðarlega skilvirkt ef vel er á málum haldið. 

Ég er með svona 3+2 skipulag, þrír fyrstu dagarnir í vikunni í reglulega og fasta fundi, og tveir dagar til að grípa annað, hugsa, hitta fólk, læra og plana.

Svo er ég alveg hætt að vera týpan sem þolir ekki að eiga ósvaraða tölvupósta, það bítur ekki á mig lengur! Fólk hringir þá bara ef málið er mikilvægt.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Alltaf seinna en ég vil en um leið og ég get en það er ófrávíkjanleg regla að taka fyrst til vinnufötin og ræktar- eða tennisfötin. Það eitt og sér er það besta sem ég get gert til að undirbúa næsta dag, fyrir utan að lofa að fara fyrr að sofa á morgun.“


Tengdar fréttir

Svefnvenjurnar að vetri eins og opnunartími í Kringlunni

Hera Björk Þórhallsdóttir tónlistarkona og löggiltur fasteignasali segist líka vera almennur „græjari og gerari.“ Til að skipuleggja ólíku verkefnin sín gefur hún þeim heiti í TRELLO eins og FasteignaHera og Ilmur af jólum.

190 ástæður fyrir árangrinum segir forstjórinn og nýkrýndur afi

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, er í því átaki sem margir þekkja að reyna að rjúka ekki strax í símann þegar hann vaknar. Hermann er nýkrýndur afi, fyrsta barnabarnið fæddist í sumar og það næsta á að fæðast á allra næstu dögum. Fjölskyldan stefnir á að sameinast á Ítalíu um jólin.

Liverpool bestir í svarthvíta Finlux túbusjónvarpinu með pabba

Í fimmtán ár hefur Hugi Sævarsson, framkvæmdastjóri Birtingahússins, verið í karlahópi í ræktinni sem hefur það markmið að endast lengur á dansgólfinu en aðrir. Fótboltaáhuginn hefur fylgt honum alla tíð en í vinnunni leggur hann áherslu á forgangsröðun verkefna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×