Konan lést þann 25. nóvember síðastliðinn þegar hún varð fyrir strætisvagni á gatnamótum Gnoðarvogs og Skeiðarvogs.
„Þetta gæti heyrt undir manndráp af gáleysi,“ hefur Fréttablaðið eftir Guðmundi Páli Jónssyni, lögreglufulltrúa á Stöð 1. Hann segir rannsókn málsins vera langt komna og að það hafi verið rannsakað sem sakamál allt frá upphafi.
Guðmundur á von á að málið verði sent til ákærusviðs fyrir áramót. Það sé svo ákvörðun ákærusviðs hvort ákæra verði gefin út í málinu.
Að sögn Fréttablaðsins er bílstjórinn sem ók á konuna í leyfi, það breytist ekki fyrr en niðurstaða verður fengin í málinu. Hann sé starfsmaður verktaka sem Strætó er með samning við.
„Það var ákvörðun verktakans að hann myndi ekki keyra,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, í samtali við Fréttablaðið.