Enski boltinn

Man. Utd fékk leik sínum frestað og smitin aldrei fleiri í deildinni

Sindri Sverrisson skrifar
United fagnaði 1-0 sigri gegn Norwich á laugardaginn og enginn greindist með Covid-19 fyrir þann leik. Einhverjir leikmenn greindust hins vegar með smit daginn eftir.
United fagnaði 1-0 sigri gegn Norwich á laugardaginn og enginn greindist með Covid-19 fyrir þann leik. Einhverjir leikmenn greindust hins vegar með smit daginn eftir. Getty/Alex Pantling

Manchester United fékk það í gegn að leik liðsins við Brentford, sem fara átti fram í kvöld, yrði frestað vegna hópsmits hjá félaginu.

Ekki hefur komið fram hve margir hjá United hafa smitast af kórónuveirunni né þá hve margir hinna smituðu séu leikmenn liðsins. Félagið lokaði Carrington-æfingasvæðinu í gær vegna smithættu.

Dagana 6.-12. desember greindust 42 smit í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, hjá leikmönnum og starfsliði félaganna tuttugu. Ekki hafa greinst fleiri smit á einni viku í deildinni síðan að byrjað var að taka sýni með reglulegum hætti í maí árið 2020.

Smit hafa greinst hjá Brighton, Tottenham, Leicester, Aston Villa og Norwich, og var leik Brighton og Tottenham sem fara átti fram síðasta sunnudag frestað vegna hópsmits hjá Tottenham.

Allir leikmenn United greindust neikvæðir fyrir 1-0 sigur liðsins gegn Norwich á laugardaginn en einhverjir greindust með jákvæð sýni fyrir æfingu daginn eftir.

„Í ljósi þess að hætt var við æfingu og vegna þeirrar truflunar sem orðið hefur varðandi leikmannahópinn, og með heilsu leikmanna og starfsliðs í forgangi, fór félagið fram á að leiknum yrði frestað,“ sagði í yfirlýsingu United seint í gærkvöld.

Í yfirlýsingu Brentford voru stuðningsmenn beðnir afsökunar á frestuninni en tekið fram að félagið virti ákvörðun ensku úrvalsdeildarinnar og að heilsa og öryggi leikmanna og starfsliðs yrði að vera í forgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×