Bergsveinn sakaði, sem kunnugt er, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra um ritstuld; að hann hafi tekið kenningar sínar sem birtust í Leitinni að svarta víkingnum, trausta taki og birt í bók sinni Eyjunni hans Ingólfs án þess að geta heimilda. Ásgeir hefur vísað þeim ásökunum á bug en ítarlegri greinargerð hans er að vænta um ásakanirnar.
Málið hefur vakið mikla athygli og einn laustengdur og óvæntur angi þess er frétt Morgunblaðsins sem greindi frá því að sjálfur væri Bergsveinn hugsanlega ritþjófur og hafði blaðið fyrir sér ásakanir Finnboga Hermanssonar, rithöfunds í Hnífsdal, í þeim efnum. Í viðtali við mbl.is segir Finnbogi að árið 2003 hafi hann skrifað bókina Einræður Steinólfs, ævisaga Steinólfs Lárussonar bónda á Skarðsströnd í Dölum. Í bók Bergsveins, Svar við bréfi Helgu, frá árinu 2010 komi síðan að nokkru leyti sama orðalag og í sinni bók.“
Bergsveinn svaraði þessum ásökunum í harðorðri grein sem hann birti á Vísi. Ljóst var að honum var brugðið við ásakanir Finnboga, því bæði hafi hann látið þess svo getið að frændi sinn Steinólfur hefði verið sér innblástur og hann hafi orðalagið einfaldlega beint frá honum. Finnbogi vill hins vegar ekki una þessu mállyktum og segir þetta smjörklípuaðferð rökþrota skálds, í grein sem hann birtir á Vísi.
Þannig ganga brigslyrðin á víxl í þessari hliðarfléttu. Og nú hafa afkomendur Steinólfs sent frá sér yfirlýsingu sem í öllum aðalatriðum renna stoðum undir orð Bergsveins.
Krefjast þess að ásakanir verði dregnar til baka
„Við Steinólfsbörn urðum hvumsa við að Finnbogi Hermannsson ásaki Bergsvein Birgisson um ritstuld.
Eins og öllum hlutaðeigandi aðilum er kunnugt, færði Steinólfur sjálfur mikið af frásögnum bókarinnar Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal (2003) í letur,“ segir í yfirlýsingu systkinanna.
Þá segir að í því tilviki, þegar Finnbogi Hermannsson ásakar aðra um ritstuld þar sem vísað er í orðfæri Steinólfs sjálfs, hafi Finnbogi eignað sér það orðfæri sem Steinólfur lagði til verksins, og í öðru lagi slær Finnbogi eign sinni á orðfæri Steinólfs almennt þegar hann sagði frá.
„Er rétt að geta þess að fleiri en Finnbogi Hermannsson komu að útgáfu bókarinnar, og lögðu enn ríkari ritstjórn af hendi til verksins en Finnbogi. Við erum því hjartanlega ósammála að hann slái eign sinni á texta og orðfæri Steinólfs á þennan hátt. Förum við fram á að ásakanir þessar verði dregnar til baka.“
Útgáfa Finnboga í trássi við vilja afkomenda
Þá segja þau, líkt og Bergsveinn í sinni svargrein, að ekki hafi heldur verið staðið að endurútgáfu bókarinnar, Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal árið 2019, á þann hátt sem þau vildum. Og ekki hefðu þau veitt skriflegt umboð til þess.
„Þar hefur Finnbogi skeytt sínum eigin texta, sem hann kallar Skarðsstrandarrollu, framan við texta Steinólfs, og lítum við svo á að það eigi ekki heima við hlið höfundarverks Steinólfs. Og þótt höfundarréttur segi til um að bókin sé Steinólfs líka, vorum við ekki spurð álits á þessu fyrirkomulagi og erum því mótfallin.“
Og undir yfirlýsinguna rita þau Sesselja, Halla Sigríður og Stefán Skafti.